Í slóð Jónasar yfir Nýabæjarfjall

Í slóð Jónasar Hallgrímssonar yfir Nýjabæjarfjall 170 árum síðar 

Ferðafélag Skagfirðinga og Ferðafélagið Hörgur gengust sameiginlega fyrir göngu yfir Nýjabæjarfjall. Var gengið frá Skatastöðum í Austurdal í Skagafirði yfir í Villingadal í Eyjafirði laugardaginn 25. júlí og tók ferðin 14 tíma. Leiðsögumenn voru Ágúst Guðmundsson og Bjarni E. Guðleifsson. Þátttakendur voru 38 talsins og komust færri að en vildu. Gengið var úr 240 metra hæð og hæst farið í nærri 1170 metra hæð og var þessi leið talin með hæstu fjallvegum landsins fyrr á öldum. Við Skatastaði var farið á kláf austur yfir Jökulsá og síðan gengið fram að Tinnárseli, inn Tinnárdal og upp Illagil á hásléttuna. Þar hófst löng ganga á stórgrýttu landi þar sem voru snjóskaflar í lægðum og sums staðar þurfti að vaða læki. Var stefna tekin á Botn Svardals, sem er afdalur Villingadals, farið þar niður brattan dalbotninn og gengið heim að bænum Villingadal. Daginn fyrir ferðina snjóaði víða í fjöll og var örvænt um að skynsamlegt væri að fara þessa ferð. Hins vegar reyndist hið ágætasta veður þarna á öræfunum, logn allann daginn, og má segja að veðurguðirnir hafi sýnt á sér allar hliðar, stuttan tíma í senn; regn, hundslappadrífa, haglél, þoka og ekki síst glampandi sólskin, allt í logni. Göngunni veður kannski best lýst þannig að dalirnir voru afar fagrir og góðursælir, en á Nýjabæjarfjalli var afskaplega auðnarlegt og seingengið stórgrýti.

 

Jónas Hallgrímsson lenti í hrakningum á þessari leið 20. ágúst 1839 og komst nær dauða en lífi til Eyjafjarðar. Var hann að leita að nýtanlegum brúnkolum í Illagili. Er talið að sviplegur dauðdagi hans eftir fótbrot í Kaupmannahöfn sex árum síðar sé að einhverju leyti afleiðing þeirra meina sem hann bar eftir hrakningana á Nýjabæjarfjalli. Í ferðinni kynnti Bjarni E. Guðleifsson ævi og störf Jónasar, einkum þessa afdrifaríku ferð yfir Nýjabæjarfjall. Nú vita þátttakendur í göngunni hve auðvelt er að villast á þessu kennileitalausa og víðáttumikla hálendi. Hugleiðingar í ferðinni um hrakninga Jónasar vöktu nokkrar spurningar.