Í torfærugír á nesinu - hjólaferð upp að Snæfellsjökli

Í torfærugír á Nesinu - mögnuð 2 daga fjallahjólaferð upp að Snæfellsjökli og nágrenni. 23. - 24. júlí.

Nokkuð krefjandi fjallahjólaferð fyrir fólk sem vill upplifa einstaka náttúru og finna hjólakröftum sínum verðuga viðspyrnu. Brattar brekkur og grófir vegir, að ógleymdri óviðjafnanlegri fjallasýn, einkenna þessa ferð. Samanlögð vegalengd er 100 km. 

Ferðatilhögun: 

Dagur 1: Þátttakendur flytja hjól sín á eigin vegum upp á Snæfellsnes og hittast við Arnarstapa laugardaginn 23. júlí. kl. 11.00. Lagt er á Hálsleið, utan í Snæfellsjökli og hjólað upp í nærri 700 metra hæð. Þar tekur við magnað niðurbrun norður og niður á Ólafsvíkurveg. Þaðan liggur leiðin austur á Fróðarheiði og er frábær skemmtun að bruna hana niður á Snæfellsnesveg uns tekin er stefnan vestur á Arnarstapa í gistingu, (tjöld eða innigisting). Mæla má með kvöldmat í Fjöruhúsinu að Hellnum. Vegalengd: 55 km. Áætlaður ferðatími: 6-7 klst.

Dagur 2: Sunnudaginn 24. júlí tökum við saman föggur okkar og ökum með hjólin út að Vegamótum, og hjólum gömlu Vatnaleiðina, yfir Snæfellsnesið í frábæru umhverfi. Hjólað er þvínæst í gegnum hið margfræga Berserkjahraun áður en haldið er til baka um nýju Vatnaleiðina.  Enginn verður svikinn af því að bruna niður af henni suður að Hjarðarfelli, í bílana. Heildarvegalengd: 45 km áætlaður ferðatími: 5-6 tímar.

Æskilegt er að fólk sé á fjallahjóli í góðu ásigkomulagi og hafi meðferðis aukaslöngu, bætur og létt viðgerðasett og sjúkrapakka. Hjálmur og viðeigandi skjólfatnaður er nauðsynlegur. 

Fararstjóri: Örlygur Steinn Sigurjónsson

 Verð kr. 20.000