Jarðhitasvæðin við vesturjarðar Reykjanesfólkvangs

2. júní 2012: Jarðhitasvæðin við vesturjaðar Reykjanesfólkvangs

Brottför með rútu  frá Mörkinni 6 kl. 10:00.

Frá Reykjanesbraut verður ekið um Afstapahraun að Höskuldarvöllum og Trölladyngju. Gengið verður upp á hæðina sem eftir stendur af Eldborg við Trölladyngju og horft yfir jarðhitasvæðið en gígurinn er hornpunktur í Reykjanesfólkvangi.

Frá Trölladyngju verður ekið að borholu HS Orku í hrauninu vestur af Sogum þar sem rútan verður yfirgefin. Þar er ætlunin að skoða jarðhitasvæði ásamt sprengigíg í hrauninu. Síðan verður gengið upp í Sogin, farið yfir myndunarsögu þeirra og litið á jarðhitann. Farið verður að Spákonuvatni en á þeirri leið fæst góð sýn yfir Sogin og gígasvæðið vestan undir Núpshlíðarhálsi en þar er upptakasvæði Afstapahrauns sem runnið hefur allt til sjávar í Vatnsleysuvík.

Gengið verður suðvestur með Núpshlíðarhálsi að Hvernum eina, en gufur frá honum mátti sjá frá Reykjavík í lok 19. aldar. Farið verður suður eftir Selsvöllum sem príddir eru einkar formfögrum gjallgígum. Frá Selsvöllum verður haldið að Hraunsels-Vatnsfelli og suður með fellinu að Sandfelli og litið við á litlu jarðhitasvæði sem þar er. Haldið verður suður með fellinu og Höfða en milli fellanna og Núpshlíðarháls eru Skolahraun og Leggjarbrjótshaun. Komið er á Suðurstrandarveg við Méltunnuklif þar sem rútan bíður. Í klifinu er tilvalið að skoða fornar jökulrákir á milli hraunlaga.

Gera má ráð fyrir að gangan sjálf taki 4-6 tíma.
Verð kr. 2.000 / 3.000

Leiðsögumaður: Reynir Ingibjartsson