John Snorri – kveðja frá Ferðafélagi Íslands
John Snorri Sigurjónsson fjallgöngumaður var félagi í Ferðafélagi Íslands og hafði á undanförnum árum tekið að sér fjölmörg verkefni fyrir félagið; aðallega sem fararstjóri en einnig setið í ferðanefnd og haldið kynningar og fyrirlestra á vegum félagsins.
John Snorri var umsjónarmaður FÍ Ung – Ferðafélags unga fólksins og leiddi þar ferðir félagsins. Einnig tók John Snorri þátt í starfi Ferðafélags barnanna og var fararstjóri í Laugavegsferðum með FB en var auk þess fararstjóri í ferðum FÍ , t.d. á Hvannadalshnúk og Heklu.
John Snorri sat í ferðanefnd félagsins 2018 – 2019. Hann kom að kynningarstarfi á vegum FÍ og var fyrirlesari á myndakvöldum þess, bæði fyrir FÍ en einnig FÍ Ung og Ferðafélag barnanna þar sem hann sýndi myndir úr leiðangrum sínum.
Á 90 ára afmæli FÍ 2017 var John Snorri sæmdur gullmerki FÍ fyrir afrek sín í fjallamennsku.
John Snorri og Lína Móey í grunnbúðum Everest.
John Snorri varð 2017 fyrstur Íslendinga til að klífa K2 annað hæsta fjall heims og Lhothse, fjórða hæsta fjall heims. Auk þess hafði hann klifið Broad Peak og Manaslu en þessi fjöll eru yfir yfir 8000 m há. Þannig hafði John Snorri á ótrúlega skömmum tíma klifið fjögur af 14 8000 metra fjöllunum og stefndi á að klára þau öll á næstu árum.
Helstu fjöll sem John Snorri kleif
Mont Blanc; 4.808 metrar) árið 2011
Ama Dablam (6.812 metrar) árið 2015
Elbrus (5.642 metrar) árið 2016
Lhotse (8.516 metrar) árið 2017 (fyrsti Íslendingurinn á toppinn)
K2 (8.611 metrar) árið 2017 (fyrsti Íslendingurinn á toppinn)
Broad Peak (8.047 metrar) árið 2017
Matterhorn (4.478 metrar) árið 2018
Breithorn (4.164 metrar) árið 2018
Í háfjallaleiðangri sínum á K2 2017 safnaði John áheitum fyrir Líf Styrktarfélag.
Hann varð þjóðþekktur fyrir þetta afrek og það að hafa sigrast á Lhotse og Broad Peak sama ár. Í viðtali við DV eftir leiðangurinn sagði John meðal annars:
„Mér finnst langbest að segja að ég sé bara sveitastrákur úr Ölfusinu. Og það eru nú ekki há fjöll þar þannig að það má eiginlega segja að ég sé flatlendingur.“ John Snorri var alinn upp á bænum Ingólfshvoli, þar sem hann bjó með foreldrum og tveimur systrum, hvorri sínum megin við hann í aldri. Hann gekk í grunnskóla í Hveragerði en segist ekki hafa verið öflugur námsmaður á þeim tíma.
„Skólatöskunni henti ég alltaf í anddyrið um leið og ég kom heim úr skólanum og svo var hún næst tekin upp þegar ég fór í skólann aftur daginn eftir. Ég var alltaf strax kominn í vinnufötin og fór út í fjárhús eða út í náttúruna. Ég var mjög heppinn krakki, pabbi leyfði mér að gera ansi margt. Ég átti að sofa heima og koma heim en að öðru leyti var ég nokkuð frjáls. Ég hafði þó ákveðnar skyldur á bænum og sá um hluta af dýrunum. Ég held ég hafi verið sjö ára þegar það byrjaði, þannig að það var sett á mig ábyrgð snemma.“
John Snorri var í vetrarleiðangri á K2 sem hófst í nóvember 2020 þegar hans var saknað 4. febrúar sl. Þar stefndi hann á að verða fyrstur í heiminum til að klífa fjallið að vetrarlagi. Í lokahnykknum á tindinnn við svokallaðan Bottleneck í 8.200 m hæð fór eitthvað úrskeiðis og eru John Snorri og félagar hans Ali Sadpara og Juan Pablo taldir af.
John Snorri lætur eftir sig eiginkonu, Línu Móeyju og sex börn, Höllu, Sylvíu, Ragnhildi, Kjartan, Baltasar og Sigurjón.
Ferðafélag Íslands, stjórn og starfsfólk, sendir Línu og fjölskyldu, ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.
Fjölskylda Johns Snorra stendur fyrir bænastund við Vífilsstaðavatn í kvöld þriðjudagskvöld. Ferðafélag Íslands í samvinnu við fjölskyldu Johns Snorra mun standa fyrir minningargöngu um John á næstu vikum.