Dagskrá Ferðafélags unga fólksins, FÍ Ung, fyrir árið 2018 er komin út og þar er að finna tíu áhugaverðar ferðir af ýmsum toga; dagsferðir, óvissuferð og nokkurra daga ferðir um hálendi Íslands. Ferðafélag unga fólksins var stofnað 2015 með það markmið að hvetja ungt fólk á aldrinum 18–25 ára til að ferðast um og kynnast landinu – og vera úti í náttúrunni í góðum og skemmtilegum félagsskap.
Nýr umsjónarmaður FÍ Ung er fjallagarpurinn John Snorri Sigurjónsson sem gekk á K2, Lhotse og Broad Peak sl. sumar eins og frægt er. Að sögn Páls Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands, er mikill fengur í því fyrir félagið að fá afreksmann eins og hann til liðs við ungliðastarfið. Fararstjórar hjá FÍ Ung ásamt John Snorra eru þau Anders Rafn Sigþórsson, Jóhann Kári Ívarsson og Guðbörg Ása Eyþórsdóttir en þau þrjú voru fararstjórar í öllum ferðum FÍ Ung sl. ár.
Aðspurður um helstu nýjungar á dagskránni bendir John Snorri á þriggja daga spennandi ferð í Landmannalaugar. „Að ganga úti í náttúrunni gefur aukna vellíðan, það er gott og gefandi að vera í góðum félagsskap sem byggir á traustum grunni. Ég vonast til að sjá sem flesta í ferðunum okkar á næstunni,“ segir hann.
Heildardagskrá FÍ Ung, lýsingu á ferðunum og búnaðarlista er að finna hér og í Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands sem dreift var til félagsmanna, á upplýsingamiðstöðvar, í sundlaugar og víðar í nýliðinni viku.