Kennir fólki að átta sig á GPS

Hilmar Már Aðalsteinsson nýtir GPS tæknina til hins ýtrasta í ferðum sínum.
Hilmar Már Aðalsteinsson nýtir GPS tæknina til hins ýtrasta í ferðum sínum.

Hilmar Már Aðalsteinsson fjallagarpur fer í ótal fjallaferðir á hverju ári, hér á landi og erlendis. Áður en hann leggur í hann er hann ætíð búinn að undirbúa ferðina í þaula; – í tölvunni, með kortagrunna og GPS tækið. Hann veit nákvæmlega hvert hann er að fara. „Ég fer í ferðir nánast hvernig sem viðrar,“ segir Hilmar. „Þannig að ég vil helst geta bjargað mér í hverju sem er.“

Hilmar er leiðbeinandi á nokkrum námskeiðum sem nú fara fram hjá Ferðafélaginu um notkun GPS tækja. Þessi námskeið njóta mikilla vinsælda, en þau skiptast í þrjú stig: Grunnnámskeið, framhaldsnámskeið og nördanámskeið. 

Að vera „áttaður“

Þegar hefur eitt grunnnámskeið farið fram, en á það var fullbókað. Þann 13.febrúar, á þriðjudaginn, verður annað grunnnámskeið, en á það er biðlisti. Bætt hefur verið við einu auka námskeiði, þann 14.febrúar, og er einnig kominn biðlisti á það. 

Skráðu þig hér

Á grunnnámskeiðum leggur Hilmar áherslu á að kynna fyrir fólki GPS handtækin — eins ólík og þau eru — og gera fólk sjálfbjarga við að vinna með þau með útivistarnotkun í huga. 

„Fólk þarf að læra að stilla tækið rétt og læra að lesa rétt á þau með hliðsjón af misvísun og einnig að nota áttavita með tækinu. Ég fer inn á segulmisvísun, hvernig á að skrá vefpunkta í tækin og vinna með ferla. Fólk þarf líka að kunna að nota skjáinn á tækinu.“ 

Hilmar kveðst fara svolítið djúpt í hugtakið að vera „áttaður“. Það snýst í raun bara um heilbrigða skynsemi, að átta sig á kringumstæðum og hafa hugmynd um hvar maður er í veröldinni. „Það er mikilvægt að fyrirbyggja mistök eins og þau sem Ameríkaninn gerði sem keyrði óvart til Siglufjarðar.“

Grunnnámskeiðið er bæði fyrir fólk sem á tæki og líka fólk sem hefur áhuga á að eignast tæki, en vill læra fyrst um hvað málið snýst.

Að vinna með ferla

Námskeiðið fyrir lengra komna - framhaldsnámskeiðið - fer fram 20.febrúar. Þar eru örfá sæti laus.

Bókaðu framhaldsnámskeið 

„Á framhaldsnámskeiðinu er ég fyrst og fremst að kenna fólki að vinna með kortagrunn í tölvu ásamt GPS tækinu sínu. Við förum yfir það hvernig á að sækja ferla frá öðrum á netinu, fá ferla í tölvupósti og senda ferla, hvernig á að taka gögn af GPS tækjum og setja í tölvuna hjá sér, og svo framvegis.  Á þessu námskeiði lærir fólk hvernig á að undirbúa ferðir og skipuleggja í tölvunni.“

Hægt að fljúga leiðina í tölvunni

Námskeiðið fyrir þá sem eru mjög langt komnir í GPS-fræðunum ber hið skemmtilega heiti „nördanámskeið“. 

“Þá förum við ennþá lengra,“ segir Hilmar.  „Við förum t.d. í það að varpa því sem er í tölvunni yfir á Google Earth og skoða í þrívídd. Ég kenni fólki að fljúga ferla. Það er hægt að fljúga leiðina í tölvunni og stilla hraðann og vinkilinn.“ 

Einnig er farið vel yfir það hvernig er hægt að sækja kortagrunna á opin svæði á netinu, eins og á openstreetmap.com.  Sá kortagrunnur er skoðaður ásamt Garmin grunninum, og einnig er forritið OziExplorer kannað, en í því er t.d. hægt að skanna inn landakort og nota síðan í stafrænu formi. 

Nördanámskeiðið fer fram þann 27.febrúar. 

Bókaðu nördanámskeið

Er hægt að ganga of langt? 

Það er greinilega hægt að nördast endalaust í kortum og GPS. En er hægt að ganga of langt í þessu? Kemur einhvern tímann að þeim punkti að manni finnst maður ekki þurfa að fara í sjálfa ferðina? 

„Jú, þetta getur haft áhrif á upplifunina,“ svarar Hilmar.  „Stundum hefur mér fundist eins og ég sé að fara ferðina í annað skipti.“

Fólk er mjög mismunandi þegar kemur að því að nota GPS tæknina, segir Hilmar. Allir verða að finna sinn takt. Fyrir suma er landakortið og gamli góði áttavitinn einfaldlega málið. 

„En landakortið mitt er skjárinn og GPS tækið.“