Útivistarfólk er hvatt til að taka þátt í viðhorfskönnun um miðhálendi Íslands sem er hluti af meistaraverkefni í Landfræði við HÍ.
Markmiðið er að kanna viðhorf almennings á Íslandi til útivistar, ferðamennsku og náttúruverndar á miðhálendinu. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem eldri rannsóknir á viðhorfum til miðhálendisins hafa fyrst og fremst lotið að erlendum ferðamönnum.
Til þess að markmið rannsóknarinnar náist er afar mikilvægt að fá svör frá stórum og breiðum hópi íslensks útivistarfólks og FÍ hvetur alla til að taka þátt, leggja vísindunum lið og koma skoðunum sínum um stöðu og framtíð miðhálendisins á framfæri.
Spurningakönnunin, sem samanstendur af um 30 spurningum, er nafnlaus og því verður ekki unnt að rekja svör til einstakra þátttakenda. Æskilegast er að þátttakendur svari öllum liðum könnunarinnar en þeir geta þó sleppt því að svara einstökum spurningum, kjósi þeir svo.
Hægt verður að svara könnuninni til og með 2. maí, 2018.
Það er meistaraneminn Michael Virgil Bishop sem vinnur rannsóknina og leiðbeinendur hans og ábyrgðarmenn verkefnisins eru Dr. Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í Land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, og Dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði.
Gerð verður grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í meistararitgerð Michaels sem verður í opnum aðgangi á Skemmunni en auk þess verður rannsóknin kynnt á ráðstefnum og með skrifum í blöð og tímarit.