Kerstin Langenberger hefur undanfarið sinnt skálavörslu í Baldvinsskála en mikill fjöldi Íslendinga hafa gengið þessa vinsælu leið í sumar. Veðrið undanfarna viku hefur ekki verið eins ljúft og vikurnar þar á undan en það útilokar þó ekki góða daga síðar í mánuðinum. Það þarf þó ekki alltaf sól og blíðu til að njóta göngu eins og Kerstin bendir á.
„Veðrið hefur breyst. Eftir nokkrar vikur af ótrúlega góðu veðri erum við nú að upplifa frekar venjulegt íslenskt veður“ segir Kerstin. „Fjölbreytilegt veður með frekar lítilli sól. En svona veður er líka skemmtilegt. Þegar það er þoka er oft gott gönguveður og þegar það er skýjað er hitastigið fínt fyrir fjallgöngu.“
Hún segir stormský og jafnvel rigningu geta verið mjög falleg og spennandi myndefni eins og glögglega má sjá á þessum ljósmyndum sem hún tók í kringum Baldvinsskála undanfarna daga. Það hefur þó verið nóg að gera hjá henni við skálavörslu, margir ferðamenn sem koma við og gista í skála eða við skálann fyrir utan alla sem koma með á ferð sinni yfir Fimmvörðuhálsinn og allir geri auðvitað sitt besta til að aðlagast þessum veruleika sem við búum við um þessar mundir.
„Ég kalla þetta kórónu-dansinn, þegar við erum að reyna að forðast hvert annað í skálanum til að virða 2ja metra regluna og notum grímurnar þegar ekki er hægt að tryggja fjarlægðina. En þegar allir taka málið alvarlega og eru jákvæðir þá er þetta ekkert mál. Þetta venst fljótt.“