Kúnstir náttúrunnar - frábær geisladiskur

,,Þetta er alveg frábær geisladiskur og maður kemst í þvílíkt ferða- og fjallaskap," segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri um nýjan geisladisk sem kominn er út með lögum og ljóðum Sigurðar Þórarinssonar sem FÍ ásamt Jöklarannsóknarfélaginu og Hinu íslenska náttúrufræðifélagi hafa gefið út í tilefni af aldarmæli Sigurðar sl. ár.

,,Það verða allir ferðafélagar að eiga þennan disk; lögin eru alveg einstaklega skemmtileg eins og við þekkjum og fjallarómantíkin gerist ekki meiri eða flottari.  Það er þarna meðal annars mjög skemmtilleg syrpa frá 60 ára afmæli FÍ og eins eru mjög fróðlegar og skemmtilegar kvikmyndir sem fylgja, "

Diskurinn fæst á skrifstofu FÍ sem og hjá Jöklarannsóknarfélagi Íslands og Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

Í útgáfustjórn voru Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson og Páll Einarsson. Með stjórninni störfuðu þau Árni Björnsson og Edda Þórarinsdóttir.  –  Um hönnun og umbrot sá Auglýsingastofa Ernst Backman, en albúmið og diskarnir voru framleiddir hjá þýska fyrirtækinu Hofa.  –  Auk félaganna sem að útgáfunni standa styrktu nokkrir aðilar útgáfuna með fjárframlögum og aðstoð í formi vinnuframlags.