Landmannalaugar opna

Einvalalið skálavarða og umsjónarmanna skála
Einvalalið skálavarða og umsjónarmanna skála

Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum er nú opinn. Skálaverðir eru mættir til starfa og eru á fullu að sinna hinum ýmsu verkefnum til að geta tekið sem best á móti gestum.

Verkefnin eru af ýmsum toga, eins og að snyrta svæðið, þrífa allt hátt og lágt, laga borð, mála það sem þarf að mála og reisa eins og eitt samkomutjald svo eitthvað sé nefnt.

Eins og flestir vita þá hefst ganga um Laugaveginn í Landmannalaugum en þær eru líka frábær viðkomustaður einar og sér. Á svæðinu má finna margar skemmtilegir gönguleiðir um ævintýraveröld í litadýrð sem á sér fáar hliðstæður.

Hér má sjá kort af nokkrum gönguleiðum:

Gönguleiðir í Landmannalaugum

Hér má til dæmis kaupa miða með langferðabíl:

Iceland by bus

Reykjavik Excursions

Trex

Í vikunni opna skálarnir á Laugaveginum einn af öðrum, fyrst Hrafntinnusker, svo Álftavatn, þá Hvanngil og að lokum skálann í Emstrum. Skálaverðir Skagfjörðsskála í Þórsmörk hafa hins vegar verið að störfum undanfarnar vikur þar sem sá skáli opnaði fyrstur skála FÍ.

Aurskriða eyðilagði hitaveitu í Hrafntinnuskeri

Það er ekki sjálfgefið að opna skála á fjöllum. Að ýmsu er að huga fyrir utan það sem nefnt er hér fyrir ofan. Veturinn var þungur og töluvert er um viðgerðir. Næstu daga er til að mynda unnið að viðgerð á hitaveitunni í Hrafntinnuskeri en aurskriða sópaði þeirri eldri burt í vetur. Þar til viðgerð lýkur hitum við skálann með gasi þannig að gestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af köldum skála.

Starfsfólk Ferðafélagsins er mjög spennt fyrir sumrinu og hlakkar til að taka á móti öllum þeim sem vilja upplifa íslenska náttúru og njóta þess að skilja hversdagslegt amstur eftir heima.