Landvættahópurinn æfir stíft

Nokkrir meðlimir í FÍ Landvættum tóku þátt í Fljótagöngunni á föstudaginn langa. Það er góður undirbúningur fyrir Fossavatnið.
Nokkrir meðlimir í FÍ Landvættum tóku þátt í Fljótagöngunni á föstudaginn langa. Það er góður undirbúningur fyrir Fossavatnið.

Það líður að fyrstu áskorun Landvættaþrautanna fjögurra og meðlimir í Landvættahópi FÍ æfa stíft þessa dagana. Fossavatnskeppnin á gönguskíðum fer fram í lok mánaðarins og nú fer hver að verða síðastur að koma sér í form til þess að klára 50 kílómetrana. 

Þau Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall hafa umsjón með FÍ Landvættum. „Byrjunin á vetrinum lofaði mjög góðu með skíðaundirbúning,“ segir Róbert. „Fólk komst snemma á gönguskíði. En svo var mjög lítið um snjó í febrúar og mars og erfitt að komast á skíði. Fólk var farið að ókyrrast mjög. En upp á síðkastið hefur töluvert ræst úr þessu. Við fögnuðum mjög páskahretinu.“

Fyrsta æfingahelgin

Um helgina fer Landvættahópurinn í sínar fyrstu æfingabúðir. Farið verður á brautargönguskíðum, á spori, inn í Landmannalaugar frá Sigöldu. Gist verður yfir nótt og farið aftur til baka um morguninn. Alls 50 km. 

Um 80 manns eru skráðir í Landvættahópinn í ár, en um 60 fara inn í Landmannalaugar. Það er góð spá fyrir helgina og komið nóg af snjó. Þannig að það er tilhlökkun í hópnum. 

Landvættaáskorunin snýst síðan auðvitað um að klára þrjár aðrar þrautir í kjölfar Fossavatns. Í júní tekst hópurinn á við Bláalónsþrautina, um 60 km fjallahjólreiðakeppni. Í lok júlí verður svo Urriðavatnssundið þreytt og í ágúst er hlaupið 33 km niður Jökulsárgljúfur

Áhersla á allar greinar

Æft er stíft samkvæmt æfingaáætlun sem Brynhildur og Róbert hafa sett saman. Þar er jöfnum höndum synt, hlaupið, skíðað og hjólað. Ein sameiginleg æfing er í viku hverri og í hverju sporti er farið í æfingabúðir yfir helgi.  Hjólað verður um Reykjanes og í kringum Þingvallavatn, synt í Lárvaðli við Grundarfjörð og Fimmvörðuháls hlaupinn inn í Þórsmörk. 

Landvættaáskorunin nýtur sívaxandi vinsælda. Fyrir þá sem ekki vita snýst hún um að klára áðurnefndar fjórar keppnir, eina í hverjum landshluta, á innan við ári. Eini sveigjanleikinn er sá, að hlaupa má Þorvaldsdalsskokkið í stað Jökulsárhlaupsins. Að öðru leyti er engin miskunn.