Landvættur 2017?

Æfingahópur FÍ Landvætta snýst um fjölbreytta líkamsrækt með áherslu á útivist og langtímamarkmið. Þátttakendur taka þátt í fjórum þrautum á einu ári, þ.e. skíðagöngu, hjólreiðum, útisundi og fjallahlaupi og öðlast að því loknu sæmdarheitið Landvættur. Æfingar eru nú í fullum gangi og tæplega 30 manna hópur stefnir að því að ljúka öllum íþróttaviðburðum fjölþrautarinnar á þessu ári.

Það styttist í fyrsta viðburðinn, Fossavatnsgönguna sem er 50 km keppni á gönguskíðum sem fram fer á Ísafirði fyrstu helgina í maí. Í júní er svo 60 km hjólreiðakeppni sem kennd er við Bláa Lónið, í júlí er það 2,5 km sund í Urriðavatni skammt frá Egilsstöðum og svo lýkur viðburðarríku æfingaári með 33 km Jökulsárhlaupi í ágúst.

Hópurinn æfir eftir sameiginlegri æfingadagskrá og hittist að jafnaði einu sinni í viku til að æfa þá grein sem mest áhersla er lögð á hverju sinni. Eins og gefur að skilja er mikill þungi í gönguskíðaæfingunum nú um stundir enda ekki nema 10 vikur í Fossavatnsgönguna. Skilyrði til gönguskíðaiðkunnar hefur verið með besta móti undanfarið. Nægur snjór og fjölbreyttar brautir í boði í Skálafelli, Bláfjöllum, Heiðmörk og víðar.

Til að öðlast sæmdarheitið Landvættur þarf að ljúka öllum fjórum þrautunum á einu ári en það þarf hins vegar ekki að vera innan sama almanaksárs, aðeins innan 12 mánaða. Af því leiðir að hægt er að byrja að reyna sig við þessa þraut hvenær sem er.

Nokkuð er síðan lokað var fyrir skráningu í Fossavatnsgönguna en þeir sem vilja t.d. byrja á hjólreiðunum, sundinu eða hlaupinu og ljúka þrautinni á næsta ári býðst að hefja strax æfingar með hópi FÍ Landvætta enda mun prógrammið halda áfram á næsta ári líka.

Allar frekari upplýsingar má fá á skrifstofu FÍ í síma 568 2533 eða með því að hafa samband við hópstjóra, Brynhildi, í gegnum netfangið brynolafs@gmail.com.