Langjökull - Þórisdalur - Hveravellir - myndasería

Með í ferðinni nú voru fjölmargir göngumenn úr fyrri hluta ferðarinnar sem farin var fyrir nokkrum árum.  Pétur Þorleifsson fjallagarpur skipulagði ferðina og var með í för.  Einnig Gerður Steinþórsdóttir fyrrverandi ritari stjórn skrifaði grein í Morgunblaðið, Á slóðum Ferðafélags Íslands um þá ferð og birtist hún hér:

Auðnirnar norðan og vestan Langjökuls eru fáfarnar en landslag fjölbreytilegt. Nýlega var farin fyrsta skipulagða ferðin á vegum Ferðafélags Íslands á þessar slóðir. Gerður Steinþórsdóttir segir frá ferðinni og lýsir gönguleið.

 

KLUKKUNA vantaði hálfa stund í miðnætti föstudaginn 21. júlí sl. þegar við komum á Hveravelli og bjuggum um okkur í gamla vinalega skála Ferðafélagsins. Kannski eru þessir skálar síðustu menjar baðstofumenningar á landinu þar sem menn sofa og matast í sama herbergi. Í lauginni fyrir utan voru nokkrir ferðamenn að baða sig. Úti var slagveður, dimm og drungaleg þoka yfir Kili. Vindurinn gnauðaði við glugga alla nóttina.

Hópurinn, fimmtán manns, ætlaði að gista eina nótt á Hveravöllum en halda síðan norður og vestur fyrir Langjökul um fáfarnar slóðir og koma fimmtudaginn 27. júlí í Geitland, þar sem er Jaki, skáli Samtaka ferðaþjónustunnar, við rætur Langjökuls. Þetta var fyrsta skipulagða ferð FÍ um þessar slóðir og var Pétur Þorleifsson hvatamaður hennar.

Morguninn eftir var sama þoka, rok og rigning. Gestur Kristjánsson og Pétur Þorleifsson, fararstjórarnir okkar, ákváðu að fresta för um sólarhring, því spáð var batnandi veðri. "Ég fauk eins og þvottur á snúru þegar við komum upp á hæðina," sagði Pétur kankvís þegar þeir Gestur höfðu kannað veður og vinda og þurftu að tilkynna breytingu á ferðaáætlun.

Í staðinn gengum við að Strýtum, gömlum eldgígum, sem eru sex km sunnan við Hveravelli. Að áliðnum degi myndaðist regnbogi yfir Kili svo skær og fagur að annan slíkan hef ég ekki augum litið. Um kvöldið var lesið upp úr árbók FÍ 1980: Langjökulsleiðir eftir Harald Matthíasson menntaskólakennara á Laugarvatni, en hann gekk þessa leið árið 1974 ásamt Kristínu Ólafsdóttur konu sinni og Kristni Kristmundssyni skólameistara.

Við Hundavötn

Gangan hófst klukkan níu á sunnudagsmorgni í sólskini. Við gengum fyrst upp á Breiðmel norðan við skálann og reyndum að hagræða pokunum sem best á bakinu.

Hveravellir liggja í 650 m hæð. Fjöllin framundan eru blá, ávöl og með einstaka fönnum: Þjófadalafjöll með Rauðkolli og Oddnýjarhnjúk. Fyrir framan hnjúkinn er samnefnt gil. Sagan segir að Oddný nokkur hafi verið á grasafjalli er hún varð viðskila við félaga sína. Henni tókst að draga fram lífið heilt sumar á sauðamjólk og fjallagrösum. "Það hefur verið gott sumar," sagði finnska konan í hópnum. Norðan við Þjófadalafjöll liggja Búrfjöll, sem er alllöng fjallaröð með mörgum hnúkum. Við stefnum á norðurhluta Þjófadalafjalla. Göngulandið er gróið mosa, lyngi og víðikjarri, og sums staðar mjög þýft. Á leið okkar eru þrjár bergvatnskvíslar. Þær eru vatnslitlar núna og við stiklum þær: Þegjandi fyrst, þá Hvannavallakvísl og loks Dauðsmannskvísl. Handan Dauðmannskvíslar tekur gróðurleysi við, en það kallast því kynlega nafni Djöflasandur.

Norður frá Langjökli og Eiríksjökli liggur mikil háslétta. Hún er hæst við norðurenda Langjökuls (900 m) en hallar þaðan hægt til austurs, norðurs og vesturs. Þegar við erum komin upp á hæðina opnast smám saman fjallasýn: Mörg ávöl fjöll en hæst þeirra er Krákur á Sandi, 1.188 m á hæð (ný mæling). Krákur þýðir hrafn, enda er fjallið kolsvart, ílangt og óreglulegt að lögun og sést víða að. Þarna eru Hundavötn, eystra og vestra.

Við sjáum í það eystra á hægri hönd, stórt vatn, hvítt af jökulleir. Á vinstri hönd er Langjökull, næststærsti jökull landsins, 960 km², flatur á að líta. Þaðan renna margir leysingalækir sem við stiklum. Á rennur austan við Krák, en líkist núna stöðuvatni.

Loks komum við að silfurtærum læk umvöfðum mosa mitt í auðninni. Þar veljum við okkur náttstað. Það var hvasst og erfitt að tjalda. Menn báru grjót að skörum og stögum. Um kvöldið könnuðu fararstjórar vað á ánni að Krák, aðrir skoðuðu Hundavatn hið vestra, sem er grænleitt að lit en minna en hið eystra. Þarna voru snjóskaflar. Um tíuleytið lygndi skyndilega og lækurinn fékk að syngja sín öræfaljóð fyrir tjaldbúana ótruflaður af vindinum.

Gengið á Krák

Morguninn eftir var logn og sólskin. Það gekk vel að vaða tvær kvíslar á leið okkar að Krák, en við stöndum við rætur hans eftir tæplega klukkustundar göngu. Leiðin liggur upp fjallið eftir hrygg sunnanmegin.

Brattinn er töluverður og grjótið nokkuð laust. Á hábungunni er myndarleg varða sem landmælingamenn hafa reist. Af fjallinu er víðsýni mikið, en í dag liggur hitamóða yfir landinu. Í austri sjást fjöllin á Kili, í norðri Mælifellshnjúkur yfir Blöndulóni, í vestri Baula í Borgarfirði og í suðri Eiríksjökull, svo fáein fjöll séu nefnd. Sólin brennir. Við förum niður aðra leið, niður skarð sem liggur milli syðsta hlutans og hábungunnar. Þar er mölin sandborin. Við komum í tjaldstað eftir fimm tíma göngu á Krák. Við fáum okkur að borða og tökum farangurinn saman. Hér væri hægt að reisa gönguskála og fara ferðir frá Hveravöllum til að skoða Hundavötn og ganga á Krák. Upp úr þrjú hefst gangan meðfram Langjökli; yfir ár, hraun, sanda og jökulurðir. Við erum í Strýtuhrauni. Næturstaður er óviss. Þarna eru fleiri á ferð; hvít ær með lamb sem stefnir í sömu átt og við en nokkru vestar. Einhvers staðar eru hagar. Á leiðinni göngum við niður þrjá stalla. Fyrir neðan þann fyrsta er lítil tjörn, nokkru fyrir neðan annan stallinn hefur stórgrýti hrunið úr hlíðinni og skömmu síðar komum við að á sem rennur eftir sandinum. Þarna erum við að hugsa um að tjalda þegar fáeinir stórir regndropar falla til jarðar. Við flýtum okkur að setja regnhlífar á bakpokana og áður en varir styttir upp. Við höldum áfram í von um hlýlegri næturstað. Þriðji stallurinn er sá hæsti og fyrir neðan hann tekur við gróið land. Þessi stallur heitir Hraunshorn. Við göngum þar til við komum að lítill tjörn. Frá henni rennur lækur milli mosavaxinna þúfna. Hér eru Efri-Fljótadrög. Við höfum gengið í fimm tíma meðfram jöklinum án þess að sjá hann, því dökk skriðuhlíð með fönnum liggur meðfram honum og skyggir á jökulinn. Framundan er lág ávöl hæð, Guðnahæð. Á milli hennar og jökulsins sést í vestasta hluta Eiríksjökuls. Um kvöldið horfum við á sólarlagið; sólin glóir við sjónarrönd sveipuð skýjaslæðu. Mý sveimar hljóðlaust í kvöldhúminu. Öræfakyrrð.

Ljósberi í Hallmundarhrauni

Morguninn eftir, hinn 25. júlí, lögðum við af stað kl. 10. Skömmu síðar komum við að á. Þar þraut gróður og hinum megin tók við sandauðn. Eftir stutta stund komum við að sóttvarnargirðingu, sem greinilega hefur verið lagfærð nýlega og lágu gömlu staurarnir eins og hráviði við hana. Þar handan við í lægð blasti við lítil tjörn, og vestar fleiri tjarnir. Í fjarska sést til skálans við Áfangatjörn, en í veðurblíðunni þurfum við ekki á húsi að halda. Eiríksjökull (1.672 m) sést nú í allri sinni dýrð, þar sem hann ríkir einn undir bláum himni með hvítan skjöld, mikilfenglega skriðjökla, sem falla í stöllum, og svarta hamra. Vindur er í bakið.

Nokkru síðar gengum við út á Hallmundarhraun sem liggur í sömu hæð og Hveravellir. Það er geysistórt og hefur komið úr tveimur gígum upp undir Langjökli. Þessir gígar eru dularfullir og var mér tjáð að ekki væru til myndir af þeim.

Við áðum í hrauninu, klæddum okkur úr skóm og sokkum. Vera, sem er þýsk, tók tjaldið sitt í sundur og hengdi það á göngustafina sína til að verjast brennandi sólargeislunum og Pétur, sem var með regnhlíf með sér, notaði hana sem sólhlíf. Ferð okkar sóttist seint gegnum hraunið sem var mjög úfið á köflum, gróið grámosa. Og ljósberar teygðu bleika kollana upp úr mosanum. Við stefnum á Þrístapafell (695 m), en þar ætluðum við okkur náttból. Á vinstri hönd sér nú í Langjökul og koma nokkrir svartir höfðar úr honum, en þeir eru nafnlausir. Á þessum slóðum er ekkert vatn og voru margir orðnir æði þyrstir. Við Þrístapafell tjölduðum við á sandi um sjöleytið við hvítlitað jökulvatn, allstórt og mjög leirborið. Það var volgt. Hér heitir Jökulkrókur.

Í Flosaskarði

Miðvikudagsmorgunn. Þoka yfir landinu, fluga á sveimi. Við göngum milli Þrístapanna, sem kannski eru fleiri en þrír, og þar sjáum við tvílembda á.

Mikið eru þær fallegar á fjöllum. Göngulandið er sandorpið hraun, víðir, holurt. Þoka er á Eiríksjökli, en hún leysist smám saman upp eftir því sem við nálgumst hann. Á vinstri hönd er einn af skriðjöklum Langjökuls og heitir Þrístapajökull, flatur og breiðvaxinn. Hægra megin við hann sjást nokkur gróðurlaus sker í jökulröndinni. Þau heita Mókollar. Uppi á jöklinum rís Þursaborg og fjær sér í Péturshorn sem er nefnt eftir fararstjóranum okkar. Við rætur Eiríksjökuls er slétt breiðgata og þarna minnir auðnin á Vonarskarð. Hér finnst mér fegurðin mikilfenglegust. Framundan er Flosaskarð (600 m), sem liggur milli jöklanna og afmarkast af tveimur vötnum. Nyrðra vatnið er hvítt á leirum. Það dunar í jöklinum. Frá honum falla litlir fossar og lækir liðast eftir sandinum. Við borðum hádegismatinn í steikjandi sólskini undir stórum kletti og njótum útsýnisins. Það var einhvers staðar hér sem Haraldur Matthíasson tjaldaði um miðjan dag í júlí 1974 og lýsir svo í árbók: "Hér er svo fagurt og friðsælt að naumast er unnt að fara um án þess að nema staðar; hvítir jökulhjálmar, ljósar leirur, bjartir skriðjöklar, dökkir hamrar, gráar skriður, svart hraunflæmi milli jöklanna með himinbláu vatni spegilsléttu í logninu. Og hjá því kúrir grænt tjald þriggja ferðalanga, sem eru komnir á vit auðnarinnar. Á slíkum stundum og stöðum skynja menn bezt kyrrð, fegurð og mikilleik öræfanna." Um nón erum við stödd við enda vatnsins, en Þorsteinshnúkur, nefndur eftir Þorsteini Jósepssyni blaðamanni og ljósmyndara, skilur á milli vatna, en þó komumst við ekki á milli þeirra þurrum fótum. Syðra vatnið er grænt og formfagurt. Þarna sáum við til mannaferða, tveggja manna sem komu niður fönnina ofan við vatnið. Þeir ætluðu til Hveravalla, öfuga leið við okkur. Við ákváðum að tjalda við vatnið á sjötta tímanum og leggja af stað snemma morguninn eftir. Vatnið var ískalt en finnska konan fór léttklædd út í vatnið og jós því yfir sig úr potti . Slíkt hef ég séð á málverkum frá Finnlandi. Pétur sagði við eiginmann hennar fullur aðdáunar: "Þú átt stórkostlega konu." Aðrir léku þetta ekki eftir henni.

Á Langjökli

Við áttum að leggja snemma af stað, en seinkaði vegna dimmrar þoku, klukkan orðin níu þegar lagt var upp á hæðina í átt að Hafrafelli og Langjökli. Þokunni létti fljótt og fagurt var að horfa yfir vatnið.

Framundan var jökulurð. Þarna við jökulinn er lítið lón og þræddum við fyrir það og lentum sum í sandbleytu upp að hné. Um hádegi erum við komin á jökul og ég finn þægilegan svala frá honum. Við gengum síðan á jökli það sem eftir var leiðar. Ótal lækir renna niður hann og stöðugur lækjaniður er í eyrum. Brátt sér til Geitlandsjökuls (1.390 m) sem er jökulkrýndur stapi sem stendur upp úr jaðri Langjökuls. Þarna var nokkur þoka yfir fjöllum. Nú blasir sveitin við: "Þarna er Gilsbakki," segir fararstjórinn og bendir.

Það brestur í klaka undir fótum okkar og lækirnir niða og niða. Um þrjúleytið lýkur göngu okkar við Jaka, skála Samtaka ferðaþjónustu. Leiðin í beinni línu er um 90 km en við höfðum gengið 140 km að mati Gests þessa daga. Í Jaka er hópur ferðamanna frá Austurríki. Ég ræði við fararstjóra hópsins, sem er Austurríkismaður og vel kunnugur á Íslandi, en hann sýnir ferð okkar mikinn áhuga. Rútan þarf að koma hópnum hans niður á þjóðveginn fyrst, á meðan bíðum við í glampandi sól undir jöklinum.

Höfundur er ritari Ferðafélags Íslands.