Laugavegsrit, þriðja útgáfa

Laugarvegsbæklingur FÍ kemur út í þriðja sinn:

Töllslega fagurt landslag

Laugavegurinn, bæklingur FÍ eftir Leif Þorsteinsson líffræðing kemur út á næstum dögum, en Leifur hefur verið meðal virkustu liðsmanna FÍ. Þetta er þriðja útgáfa þessa vinsæla bæklings um gönguleiðina úr Landmannalaugum suður í Þórsmörk sem þúsundir ferðast um á hverju sumri. 

Ferðir um Laugaveginn hófust fyrst fyrir alvöru árið 1979 og slógu strax í gegn. Fljótlega gerði ferðafélagsfólk sér ljóst mikilvægi þess að til væri upplýsingabæklingur um leiðina,  eins og Guðjón Magnússon kennari tók saman og félagið gaf út 1985. Á þeim stofni byggði Leifur Þorsteinsson eþgar hann gaf út sína bæklinga árið 1999 og aftur 2002. „Með hverju árinu sem líður bætist eitthvað við, meðal annars í ljósmyndatækni og kortagerð sem eru veigamikill þáttur í þessu riti. Endurútgáfa með nokkurra ára millibili er því afar þörf,” segir Leifur Þorsteinsson.

Lítarítfjöll og fannhvítir jöklar

Líparítfjöll, svartir sandar, snarkandi hverir, fannhvítir jöklar og kolmórauð jökulfljót eru meðal þess sem gera náttúrufar á leiðinni um Laugaveginn jafn stórbrotið og raun ber vitni. Vinsældir hennar eru því afar eðlilegar.

„Fyrst þegar ég fór þarna um gátum við vaðið báðar  Emstruárnar sem ég hef aldrei getað síðan. Nauðsynlegt var því að brúa þær svo Laugavegurinn yrði fær göngufólki. Seinna komu  brýr á Kaldaklofskvísl og Ljósá sem eru að vísu ekki sömu farartálmar og hinar árnar,” segir Leifur um Laugaveginn sem er tæplega 60 km. Langur og alla jafna genginn á fjórum dögum. Lagt er upp frá Landmannalaugum. Hæfilegt er að ganga  fyrsta daginn upp í Hrafntinnusker, þann næsta suður að Álftavatni eða í Hvanngil, þaðan í Botna á Emstrum og enda í Þórsmörk á fjórða degi.

Greip mig sterkum tökum

„Sjálfur er ég löngu hættur að telja hversu oft ég hef farið um þessar slóðir. Þær gripu mig strax afar sterkum tökum þegar ég fór þar fyrst um í kringum 1970. Náttúrufar þarna er bæði stórbrotið og fallegt og á sér fáar hliðstæður. Það er til dæmis ævintýri líkast að ganga upp á Háskerðing sem eru tæplega 1.300 metra hátt fjall austan við megingönguleiðina þar sem ljósrauðleit fjöll eru norðri og svartar auðnir og jöklar í suðri. Þetta er tröllslega fagurt,“ segir Leifur.

Laugavegsritið fæst á skrifstofu FÍ og kostar kr. 1500.