Eigum við að fara í fjallgöngu í sumar ?
Eftir að hafa rætt um Laugavegsgöngu nokkuð lengi var haldinn fjölskyldufundur á vormánuðum þar sem lagst var yfir Íslandskort og leiðin kynnt börnunum, en heimilisfaðirinn Þórður var búinn að far leiðin í tvigang og því nokkuð vanur maður. Ekki fannst krökkunum þetta vera neitt tiltökumál, nokkrir sentimetrar á kortinu en til að gera þeim betur grein fyrir hversu löng hún væri var hún borin saman við leiðina frá Kjalarnesi til Reykjavíkur og aftur til baka en þá leið þekktu þau vel. Nákvæmari kort tóku þá við til að skýra línurnar og þá óx spennan. Þetta var klárlega ævintýraferð sem var ekki fær öllum, og til þess að komast slíka ferð þufti að undirbúa mannskapinn vel með nokkrum styttri fjallgöngum. Það hljómaði bara meira spennandi. Að auki þurfti að gera sér grein fyrir að á hálendi Íslands mætti búast við hvers kyns kynjaverum, óveðri, rigningu og roki, jafnvel vetrarveðri og hvernig skyldi nú bregðast við því. Hvað skyldi gera ef við yrðum svo þreytt að við gæfumst upp, eða ef einhver færi nú í fýlu? Gæti einhver sótt okkur? Börnin voru spurð að því hverjir vildu vera heima og hverjir treystu sér með í ferðina. Enginn vildi vera heima, og allir voru því samþykktir með í ferðina á þessum tímapunkti. En nú tæki við þjálfun, nokkurskonar prófraun á fjöll í nágrenninu, þrátt fyrir að börnin væru þokkalega vel vön styttri fjallgöngum og útivist. Rætt var um mikilvægi þess að ganga á Úlfarsfell, Esjuna, Lágafell svona í leiðinni heim, Helgafell og jafnvel fleiri fjöll sem lægju vel við.
Úlfarsfell var tekið með áhlaupi einn góðan veðurdag en það fór nú þannig að Halldór og Magnús ásamt Þórði voru fyrstir upp en við stelpurnar komum nokkuð á eftir þeim, mamman þó langsíðust. Á toppi Úlfarsfells lág ljóst fyrir að mamman var sú sem þurfti á mestri þjálfun að halda og hreinlega spurning hvort sú gamla kæmist yfirhöfuð með eftir jafn slaka frammistöðu og raun bar vitni þennan dag. Esjan yrði tekin að nokkrum dögum liðnum. Dagarnir liðu, vikurnar liðu og ekki gafst tími til að skella sér í fjallgöngu, en fótboltamót á Skaganum og í Vestmannaeyjum gengu fyrir. Þó var farið í hjólreiðaferð frá Kjalarnesi til Reykjavíkur svona til að sýna lit.
Þjálfunin og undirbúningurinn varð því meiri andleg en líkamleg, en útbúnaður, tjald, svefnpokar, fatnaður, góðir skór og matur var gerður klár.
Leiðangursmenn voru því eftirtaldir: Þórður, geðillur karl á fimmtugsaldri með töluverða reynslu af fjallaferðum, Fríða á besta aldri, Halldór Jón 10 ára fótboltastrákur,(Mancester eru bestir!) Katrín Edda 8 ára fimleikastelpa sem heldur með Liverpool og Magnús Ingi 6 ára fótboltastrákur.
Þrátt fyrir fáar fjallaferðir á undirbúningstímanum var ákveðið að fara ferðina svo beðið var eftir veðri. Tækifærið kom þegar ský dró frá sólu þann 18. júlí, með ljómandi góðu veðri svo glaðir ferðalangar drifu sig af stað. Halldór afi var fenginn til að keyra ferðagarpa inn að Landmannalaugum. Á leiðinni inn á hálendið veltu ferðalangar því fyrir sér hvort allir kæmust á leiðarenda í þessri ævintýraferð, skyldi einhver gefast upp og einnig var spurt hvernig væri að gista í skálum með ókunnugu fólki. Pabbinn sagði að þær þýsku fretuðu ógurlega á nóttunni þannig að illvært yrði í skálanum. Ekki voru allir vissir um að þetta væri satt. Mikil tilhlökkun var í hópnum, ekki síst þeim yngstu. Lagt var af stað úr borginni seinnipart þriðjudags og ekið að Landmannalaugum. Ferðin gekk vel þar til komið var að fjallveginum sem lá til Landmannalauga, og sóttist ferðin þaðan seint. Þegar í Landmannalaugar var komið uppgötvaðist nokkuð hræðilegt. Sælgætisbakpokinn hafði orðið eftir heima svo nú voru góð ráð dýr. Töluverður undirbúningur hafði nefninlega farið í að raða vel völdu sælgæti ofaní bakpoka sem krakkarnir kepptust um fá að bera í ferðinni. Það sem til var af sælgæti var því aðeins einn brjótssykurspoki sem hafði einhverra hluta vegna lent ofaní bakpoka pabbans......... eflaust óvart. En Halldór afi kom skemmtilega á óvart og afhenti í kveðjuskyni ferðalöngum 5 risa ríssúkkulaði sem hann hafði keypt á leiðinni, - og þetta varð að duga! Við gátum einnig huggað okkur og börnin við það að þegar í Þórsmörk kæmi biði okkar góður matur og fullt af öðru sælgæti sem til stóð að senda með rútunni til okkar. Við drifum svo í að koma okkur fyrir í skálanum og skelltum okkur að því búnu í heitu laugina. Kvöddum afa sem tók bílinn til baka og komum okkur ofan í svefnpokana. Í herberginu voru eingöngu þýskir kvenmenn og til að fyrirbyggja þungt loft, af fyrrgreindum ástæðum, voru allir gluggar hafðir opnir þannig að hitastigið var mjög lágt, svo hálfskulfu allir fjölskyldumeðlimir. Svefn var ekki mikill og því allir fegnir að vakna snemma morguninn eftir.
Dagur 1. Landmannalaugar Hraftinnusker Álftavatn Hvanngil, 29 km,15 klst ganga
Ræst var klukkan 7 og borðaður góður morgunmatur, jógúrt sem rann ljúflega niður og lagt af stað klukkan 8 stundvíslega í átt að Hraftinnuskeri. Sú ganga var ákaflega skemmtileg þar sem göngumenn fengu nöfn að hætti frumbyggja þegar komið var upp fyrsta áfangann. Í upphafi ferðar var tekið viðtal við ferðalanga á videovél, þeir spurðir álits um samferðamenn sína og virtist það vekja almenna kátínu í hópnum. Ákveðið var síðan að börnin skiptust á að vera foringjar hópsins þegar aðstæður leyfðu. Gangan gekk vonum framar þrátt fyrir töluverða hækkun þennan fyrsta áfanga og voru ferðalangar glaðir og léttir í spori. Á þessari leið sem getur verið hættuleg á sumarlagi sáum við minningarskjöld um fallinn mann sem hafði orðið úti í óveðri í lok júní árið 2004. Í framhaldi af því var mikið rætt um mikilvægi þess að vera vel búinn á fjöllum á Íslandi.Við komum svo í Hrafntinnusker eftir 4,5 klst göngu í glampandi sólskini og logni. Þar var áð í 1 ½ klst. og sólin sleikt, og matur borinn fram, pasta og kúskús með kexi í eftirrétt. Síðan var haldið áfram í átt að Álftavatni. Á þeirri leið hittum við vaska lögreglumenn sem ætluðu sér að arka/skokka alla leið í Þórsmörk á einum degi. Þeir hurfu sjónum okkar fljótlega enda á hraðferð. Enn var sama lífsgleðin í hópnum og virtist ekkert fara fyrir þreytu í hópnum enda veður hið ákjósanlegasta og gríðarlega einbeittur vilji foreldranna að halda uppi góðri stemningu í hópnum. Á leiðinni mættum við fólki frá ýmsum þjóðum ýmist á sömu leið og við eða sem kom á móti okkur norðurleiðina. Ægifagurt var um að litast á þessari leið og sáu börnin hvers kyns kynjamyndir í náttúrunni og undruðust litbrigði fjallanna og andstæðurnar því ýmist var farið yfir háhitasvæði eða snjó. Upplifun foreldranna, af þeim krafti sem býr í þessu litla fólki ef aðeins viljinn og rétta stemmnigin er í hópnum, var frábær, en þannig lá hvert fjall að baki án nokkurra vandræða eða þreytumerkja. Pollar voru skemmtilegir, hvers kyns steinar voru skoðaðir og reyndar ákveðið að ekki væri hægt að taka alla fallegu steinana með sér svo aðeins mátti velja þrjá til að stinga í vasann. Ef fleiri fallegir fundust þurfti að skilja einn eftir.
Þegar komið var upp Jökultungurnar og Álftavatnið blasti við með stórkostlegu útsýni var farið að gæta örlítillar þreytu í hópnum. Rigningarský hafði myndast og elti okkur nokkra stund með smávægilegri skvettu, regnstakkar sóttir úr bakpokum og reynt var að flýja skýið, sem setti nokkra keppni í hópinn. Það gekk ljómandi vel enda lá leiðin niður á við. Þegar komið var niður að ánni við Grashagakvísl og búið að koma sér yfir hana virtist sem göngumenn væru farnir að lýjast enda að baki löng leið og klukkan orðin 19.30 þegar við skriðum inn að vatninu. Hér voru börnin tilbúin til að hvílast. Við Álftavatn tók á móti okkur kona ein brosandi og reyndist það vera Fanney skálavörður sem bauð uppá hlýjan skála, kaffi, djús og súkkulaði og fengu börnin að leggjast á háaloftið hjá henni og hvíla lúin bein. Lítið varð þó úr hvíldinni og skemmtu börnin sér vel á háalofinu og endurheimtu gleðina og nokkurn kraft eftir 1,5 klst stopp. Síðasti spölurinn að Hvanngili var 5 km langur og þurftu foreldrar að rifja upp ýmsar gamlar sögur og skemmtilega söngva til að peppa upp stemningu. Ræða um hundana tvo sem biðu okkar í Hvanngili og yrðu órólegir ef við kæmum ekki. Meðal annara sönglaga rifjaðist upp gamall skátasöngur og meira að segja Tyggigúmmilagið gamla með Glámi og Skrámi sem vakti mikla kátínu. Árnar, eða öllu heldur sprænurnar, sem þurfti að vaða urðu að skemmtilegri áskorun sem kom að góðu og þar fengu krakkarnir að reyna sig sjálf í ánum. Um klukkan 23.00 sáum við síðan í skálann í Hvanngili og þá var heldur betur sprett úr spori niður hlíðina og að skálanum þótt foreldrarnir færu hægar enda með birgðar á baki. Í Hvanngili tóku aldeilis frábærir skálaverðir á móti okkur og buðu okkur til skála sem var í alla staði mjög góður og notarlegur. Allir voru hvíldinni fegnir og sváfu vært alla nóttina, ánægðir með að hafa náð markmiðum dagsins.
Dagur 2 Hvanngil Emstrur 10km 4-6 klst
Flestir sváfu frameftir mrogni en Þórður fjallageit vaknaði fyrstur og dreif sig út í sólina. Aðrir í hópnum vöknuðu aðeins síðar eða um kl. 11.00 og drifu sig út. Hundarnir tveir drifu börnin út í góða veðrið svo og börn skálavarðanna. Morgunmatur var síðan framreiddur og það sem í boði var, var hafragrautur án salts eða sykurs, ásamt slátri og harðfiski. Kokkurinn fékk aðeins að heyra það frá yngsta liðinu að grauturinn væri eitthvað öðruvísi en vanalega og var þá brugðið á það ráð á setja SvissMiss út á grautinn sem gerði hann þar með að ljúffengasta hafragraut með ágætiseinkunn. Í Hvanngili vorum við svo í rólegheitum í glampandi sólskini og glimjandi góðri stemmingu ferðalanga vel framyfir hádegi. Framundan var bara stutt gönguleið svo þaðan var ekki farið fyrr en um kl. 3.00. Létt í spori og fáklædd lögðu ferðalangar af stað yfir sandana í glampandi sólskini og hita. Engin fjöll, engar brekkur, bara flatlendi. Árnar sem þurfti að vaða yfir voru skemmtilegar áskoranir. Nestisstopp var síðan við Innri-Emstruá en þar hittum við fyrir íslenska fjölskyldu sem var spölkorn á undan okkur á sömu leið. Harðfiskurinn rann ljúflega niður og vatn var sótt í flöskur og síðan flatmagað á fallegri flöt við ánna. Þegar svo lagt var í hann aftur stoppaði Magnús okkur af og tilkynnti okkur að fyrsta tönninn væri dottin!! Þetta var aldeilis heppilegur staður ! Innri-Emstruá fékk snarlega nýtt nafn... Tanná skildi hún hér eftir heita a.m.k. í okkar huga. Nú upphófust vangaveltur um það hvort tannálfar væru hér á ferð og voru skiptar skoðanir með það, hér var ekkert rúm, það stóð ekki einu sinni til að leggjast til hvílu hér svo nú voru góð ráð dýr. Tönninni var pakkað í plastpoka og vel geymd og Tanná þar með kvödd. Áfram héldum við göngunni enn léttari í spori því tannálfar sáust iðulega gæjast til okkar, oft fyrir aftan næsta hól, hæð eða bungu sem jók gönguhraðanni. Og fyrr en varði kallaði svo foringinn ég sé skálann.... og þá var tekið á sprett langt á undan foreldrunum sem sáu nú bara undir iljarnar á krökkunum, yfir hæðina og niður brekkuna að skálanum.
Þegar við foreldrarnir komum í Botna voru krakkarnir farnir að leika sér við íslensku krakkana og því nóg við að vera. Fótbolti var spilaður með tilheyrandi æfingum og nú var spurt hver gæti haldið bolta oftast á lofti. Þátttakendum í þeirri keppni fjölgaði hratt. Þá var komið að því að draga krakkana inn í kvöldmat þar sem við hittum fyrir aðra skemmtilega ferðalanga frá Þýskalandi og Sviss sem hámuðu í sig gómsæta máltíð. Það var ekki laust við að löngunaraugum væri rennt á herlegheitin en við sættum okkur bara við pakkaspaghetti, kúskús og slátur. Áður en lagst var til hvílu var mamman komin með kvíðahnút í maga af áhyggjum af gljúfrinu hrikalega sem framundan væri næsta dag... enda heyrt lýsingar af hrikalegri brú yfir beljandi jökulá. Síðan var gengið til hvílu og voru börnin fljót að sofna í skemmtilegum skála í Botnum.
Dagur 3 Emstrur Þórsmörk 15 km. 6-7 klst. 6 tíma ganga
Rigning og meiri rigning. Ákvæaðum að sofa hana af okkur enda lá okkur ekkert á þennan síðasta spotta. Þegar svo risið var úr rekkju voru aðrir ferðalangar farnir úr skálanum en okkar beið vænn skammtur af sælgæti sem íslensku hjónin höfðu skilið eftir handa krökkunum, súkkulaði og súkkulaðirúsínur. Það var sannarlega hlýlega hugsað til þeirra og með þökkum. Enn var þó nokkur beygur í mömmunni, sem var með hugann við gljúfrið, þegar ljóst var að rignt hafði hressilega um nóttina en pabbinn taldi þetta aðeins smá rigningarúða sem væri hið ákjósanlegast gönguveður. Klukkan 2 var lagt af stað í nokkrum rigningarúða sem pabbinn taldi nú bara vera af hinu góða. Og nú styttist í gljúfrið góða sem var einn varasamasti staðurinn á leiðinni. Ekki var laust við að mömmunni færi að verða meira órótt. Jarðvegur blautur og hætta á að renna til. Töluverður fjöldi fólks var þarna á sömu leið, sumum á hraðferð en öðrum í rólegheitum. Þegar við komum svo að gljúfinu yfir Emstruá var farið mjög hægt og börnin selflutt niður kaðalinn og að brúnni. Ekki var um annað að ræða en taka aðsæðum með stóískri ró og skynsemi, fara að öllu með gát og yfirvinna hræðsluna a.m.k. á yfirborðinu ! Reyndist sannarlegar full ástæða til. Fyrstur fór pabbinn með Halldór sem fékk það hlutverk að bíða á lítilli sillu og gæta Magnúsar þegar hann kæmi þangað. Síðan var Magnús sóttur, svo Katrín og mamman síðust. Hér var haldið verulega fast í hendur barnanna enda gljúfrið hrikalegt. Sami háttur var hafður á þegar yfir brúna var komið og börnin selflutt upp á öruggan stað, einn í einu með pabbanum. Börnin veltu því fyrir sér hvort nokkur hefði dottið þarna ofaní gljúfrið og spunnust nokkrar umræður um það, hætturnar í náttúrunni, og mikilvægi þess að fara að öllu með gát. Leiðin lá nú áfram og stefnt var upp á fjallsbrúnina þar sem átti að staldrað við og gæða sér á súkkulaðirúsínum. Merkilegt var að þegar lítið af góðgæti var meðferðis var krökkunum umhugað um að deila því niður svo það dygði það sem eftir var dags og í stað þess að fá sér væna fúlgu eins og gjarnan er gert, þá fékk hver og einn sex súkkulaðirúsínur!!... og lét sér það að góðu verða. Áfram var haldið og foringjaskipti voru reglulega í hópnum. Það var sungið og sögur sagðar á leiðinni, en skemmtilegast fannst þeim að syngja að hermannasið og flest lög sem þau kunnu aðlöguð að því, og einnig var skátalagið góða afskaplega vinsælt. Ýmist var það foringinn sem var forsöngvari eða mamman sem var aftast og allir gengu í halarófu. Áð var með reglulegu millibili og rúsínuskammturinn minnkaði í hvert sinn þar til aðeins tvær rúsínur voru á mann, og alltaf brögðuðust þær betur og betur ! Eftir um 2 ½ klst göngu kom allt í einu hlaupari í bakið á okkur.. á dágóðri siglingu, léttklæddur með bakpoka. Mamman hélt í fyrstu að viðkomandi hefði orðið viðskila við Laugavegshlauparana sem voru á ferð nokkru áður, kallaði til krakkanna sem voru nokkuð á undan henni að víkja og hleypa hlauparanum framhjá, en pabbinn brást ekki eins við og sagði þeim að láta hann ekki komast framúr þeim! Og það var miklu skemmtilegara! Upphófust nú mikil hlaup og enn meiri ánægja, því ekkert barnanna vildi láta hlauparann taka fram úr sér. Við foreldrarnir hertu nú gönguna, hreinlega til að týna ekki krökkunum. Komumst þó ekki jafn hratt yfir enda vel klifjuð að viðbættum spjörum barnanna sem þau höfðu kastað af sér á hlaupunum. Hlauparanum virtist skemmt við þennan óvænta félagsskap og börnin sáust ekki í góða stund. Eftir drjúga göngu sást aftur glitta í hópinn þar sem hann hafði stoppað með hlauparanum til að bíða foreldranna. Krakkarnir spurðu þá hvort þau mættu ekki fylgja hlauparanum, sem hét Patrick og var frá Belgíu og á sömu leið og við, því við færum svo hægt og það væri meira gaman að hlaupa. Með það ruku þau af stað á stuttbuxum þar til komið var niður Almenninga að Þröngá, síðustu ánni sem þurfti að vaða áður en komið er í land Þórsmerkur. Þar kláruðust síðustu orkumolarnir okkar. Nú var verulega stutt eftir og við komin í skóglendi Þórsmerkur þar sem stígarnir lágu hlykkjóttir í rjóðrinu, ævintýri líkast fyrir krakkana. Á þessum síðasta spöl máttu þau fara á undan okkur að leiðarenda, með því skilyrði að fara aldrei út af stígnum þar til þau kæmu að skálanum. Og enn var sprett úr spori það sem eftir var. Þegar við foreldrarnir komum í skálann um kl. 19.30 tóku á móti okkur sigri hrósandi börn sem köstuðu af sér skóm og sokkum og hlupu út í ískalda lækina, óðu yfir aftur og aftur og léku sér í eltingaleik í fallegri náttúrunni og einstakri veðurblíðu. Þá var komið að því að finna matarkassann sem beið okkar í Þórsmörk og opna hann. Þar átti að fyrirfinnast almennilegur matur og ýmislegt góðgæti. Það voru því eftirvæntingarfull börn sem með hröðum handtökum opnuðu töskuna og matarkassann. Enn og aftur hafði eitthvað klikkað í undirbúningnum því Bounty-ið, Snickers-ið og Mars-ið sem Halldór, Katrín og Magnús höfðu fengið að velja sér var ekki þar!! Nú lá við gráti, og hér reyndi virkilega á foreldrana að peppa upp mannskapinn og líta á björtu hliðarnar. Hvað hafði farið úrskeiðis? Líklegast skýringin fannst krökkunum að stóru systkinin þeirra heima hefðu bara étið nammið þeirra áður en þau sendu matarkassann til okkar, en það var nú frekar ólíkt þeim. Í þessari stöðu var lítið annað að gera en að ákveða að þegar heim kæmi færum við í ísbúðina og þar fengju þau að velja sér stærsta ísinn sem þau vildu. Og þetta var samþykkt eftir vangaveltur um hvort þau gætu virkilega borðað stærsta ísinn, bragðarefinn, eða krapið!! Maturinn var hins vegar á sínum stað og honum var skellt á grillið. Það reyndist sú allra besta máltíð sem ferðalangar höfðu fengið í lífinu, hamborgar með barbeque sósu og börnin tóku hraustlega til matar síns, alsæl með að hafa valið þennan mat fyrir ferðalagið. Um kvöldið var leikið frameftir í góðum félagsskap annara ferðalanga í frábæru umhverfi.
Dagur 4 í Þórsmörk Gengið í Húsadal
Frábært veður, jógúrt og annað góðgæti í morgunverð og svo bara legið í sólinni. Síðan rölt af stað inn í Húsadal, klifrað upp í Snorraríki, slappað af í heita pottinum í Húsadal, spilaður fótbolti og svo rölt aftur til baka. Grillað í góðum félagsskap í Skagfjörðsskála og síðan gengið inn að Básum þar sem við áttum frábæra kvöldstund við varðeld og söng með fjölda fólks. Frekar þreyttir ferðalangar gengu síðan til baka seint og um síðir í miklu myrkri enda orðið framorðið. Fjöldi bíla ók framhjá okkur svo við ákváðum að reyna að húkka okkur far, ef nokkur möguleiki væri á því. Allt kom fyrir ekki, allir bílar voru eðlilega fullir, svo við héldum bara okkar striki. Þá datt pabbanum í hug einn furðulegasti leikur. Allir skildu taka sér grjót í fang og hlaupa með það, því grjótið gæfi manni svo mikinn kraft og viti menn, keppst var um að finna sér eins stórt grjót og hægt var að bera og svo var hlaupið með grjótið sem reyndist töluvert þyngra en heppilegt er fyrir litla kroppa.... og þvílík gleði og kraftur í hlaupurunum. Þetta virkaði aldeilis vel! Fjórir ákafir hlauparar roguðust með grjót í fanginu eins hratt og fæturnir gátu borið þá. Frekar furðuleg sjón en bráðskemmtileg! Þegar við vorum svo komin að álfakirkjunni kom hvítur jeppi aðvífandi, stoppaði við hlið okkar og brosmildur ungur maður bauð okkur far yfir Krossá. Þáðum við það með þökkum. Þetta reyndist þá vera ungur alræmdur fjallamaður, mikill ævintýramaður sem hafði farið allnokkrar ferðir á bíl sínum yfir Krossá og virtist þekkja ánna eins og fingur sér. Hann bauð okkur að velja annaðhvort djúpu leiðina eða grunnu leiðina yfir Krossánna og það stóð ekki á svari barnanna. Djúpu leiðina ! svöruðu þau um hæl og svo var gefið í og vel valin leið farin. Það var sko ekki dónalegt að enda kvöldið með svona bílferð sem var krökkunum ógleymanleg og þau staðráðin í að eignast svona farartæki þegar þau yrðu stór til að komast yfir svona ár.
Dagur 5 Heimleið Þórsmörk - Reykjavík
Steikjandi hiti. Þvílík veðurblíða. Farangur var gerður klár á meðan börnin léku sér úti í góða veðrinu. Og til að kæla sig niður upphófst hressilegt vatnsstríð sem saklausir ferðamenn lentu óvart í en höfðu sem betur fer bara gaman af. Að lokum kom svo rútan sem sótti okkur og fengum við ævintýralegar ferðir yfir Krossá inn í Húsadal og aftur til baka enda óvenjumikill fjöldi fólks í þessari náttúruperlu landsins. Allir voru alsælir með vel heppnaða ferð og greinilega komnir í fjallagírinn því það sem eftir var sumars mátti varla sjá álitleg fjöll er við heyrðum spurt; Eigum við ekki að skreppa upp á þetta fjall?
Höfundar
Fríða Halldórsdóttir
Þórður Marelsson
Ljósmyndarar
Fríða Halldórsdóttir
Þórður Marelsson
Halldór, Katrín og Magnús tóku einnig myndir
Heimilisfang
Esjugrund 48
116 Reykjavík
553-7998
898-7895