Leiðarlýsing á hinni sívinsælu gönguleið um Laugaveginn hefur nú verið gefin út í Wapp-Walking appinu. Leiðin er í boði Ferðafélagsins og kostar notendur ekki neitt.
Wappið er sniðugt smáforrit fyrir útivistarfólk sem hægt er að hlaða niður í snjallsíma í gegnum vefverslanirnar App Store (fyrir iPhone síma) og Google Play (fyrir Android síma).
Í forritinu má finna fjöldan allan af leiðarlýsingum og kortum ásamt fjölbreyttri fræðslu og margs konar sögum sem tengjast leiðinni. Hægt er að hlaða göngulýsingunum inn í símann sinn fyrirfram eða nota þær í beinni ef símasambandið leyfir. Margar leiðarlýsingar eru ókeypis en hægt er að kaupa aðgang að öðrum.
Nýverið bættist Laugavegurinn í safn annarra leiðarlýsinga í forritinu og er göngunni skipt upp í fjórar dagleiðir. Gönguleiðarlýsingin byggir á leiðarlýsingum FÍ um Laugaveginn, frá Landmannalaugum í Þórsmörk og er ókeypis fyrir notendur Wappsins.