Nú er búið að opna alla skála á Laugaveginum nema Hvanngil sem opnar 1. júlí. Skálaverðir eru mættir til starfa og taka vel á móti gestum og gangandi.
Vegurinn inn í Landmannalaugar er opinn og eru áætlunarferðir hafnar þangað.
Varðandi færð á gönguleiðinni þá er snjór frá Stórahver og langleiðina niður að Jökultungum sem er í takt við þennan tíma árs.
Fyrir þau sem eru að velta fyrir sér að ganga þessa þekktustu gönguleið landsins þá eru hér stuttar lýsingar á hverri dagleið, miðað við að ferðin taki fjóra daga.
1. áfangi: Landmannalaugar - Hrafntinnusker (Höskuldsskáli)
Vegalengd 12 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Lóðrétt hækkun 470 m
Upp frá skála í Landmannalaugum (75 gistirými, GPS 63°59.600 - 19°03.660) liggur leiðin yfir úfið Laugahraunið, síðan upp eftir hlíðum Brennisteinsöldu og inn á hásléttuna. Litadýrðin á þessum slóðum er ólýsanleg. Landið er einnig mjög sundurskorið. Eftir 3 - 4 tíma göngu er komið að Stórahver. Leiðin frá Stórahver og upp í Höskuldsskála (36 gistirými, GPS 63°55.840 - 19°09.700) er í flestum árum undir snjó. Þegar komið er upp í skarðið á milli Hrafntinnuskers og Söðuls blasir skálinn við. Við höfum einnig útsýni til Kaldaklofsfjalla með Háskerðing hæstan fjalla. Svæðið er mjög þokugjarnt og því rétt að fara varlega þótt leiðin sé stikuð. Enginn sem gistir í Hrafntinnuskeri ætti að láta hjá líða að ganga vestur að íshellunum, sem eru u.þ.b. 1,5 km frá skálanum.
2. áfangi: Hrafntinnusker - Álftavatn
Vegalengd 12 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Lóðrétt lækkun 490 m
Í Hrafntinnuskeri blasa við okkur gróðurvana fjöll og jöklar, ekki sérlega hlýlegt en ægifagurt. Fyrst liggur leiðin meðfram hlíðum Reykjafjalla. Um er að ræða dalbotn með nokkrum giljum, sem ber að fara yfir með gát því oft eru þau hálffull af snjó. Við erum nú stödd við rætur Kaldaklofsfjalla. Ef veður er gott er sjálfsagt að ganga á Háskerðing, en hann er hæsta fjall á þessum slóðum, 1281 m.y.s. Óvíða á Íslandi er útsýni jafnfagurt og fjölbreytilegt og af tindi þessa fjalls. Framundan eru nokkur gil, uns komið er á brún Jökultungna. Að baki eru gróðurvana, litrík líparítfjöll en framundan eru dökk móbergsfjöll og jöklar. Einnig eykst gróður til muna. Leiðin niður Jökultungurnar er talsvert brött. Neðst í þeim, á bökkum Grashagakvíslar, er ákaflega vinaleg gróðurvin, þar sem sjálfsagt er að stansa. Þaðan suður að Álftavatni er gengið í sléttlendi. Skálarnir tveir standa norðan vatnsins. (58 gistirými, GPS 63°51.470 - 19°13.640)
3. áfangi: Álftavatn-Emstrur (Botnar)
Vegalengd 15 km
Áætlaður göngutími 6-7 klst
Lóðrétt lækkun 40 m
Fyrst er gengið yfir Brattháls og austur í Hvanngil. Vaða þarf Bratthálskvísl. Af hálsinum ofan Hvanngils er ákaflega fagurt yfir að líta. Þar eru tvö hús; gangnamannaskáli, reistur 1963 og aðstaða fyrir ferðafólk sem Rangvellingar reistu 1995 en nú er aðstaðan í eigu FÍ. Frá áningarstað í Hvanngili er fljótlega komið að Kaldaklofskvísl. Á henni er göngubrú. Austan kvíslar skiptast leiðir, annars vegar austur Mælifellssand (F 210) og hins vegar suður Emstrur (F 261), þangað sem leið okkar liggur. Innan við kílómetra frá Kaldaklofskvísl þarf að vaða aðra á, Bláfjallakvísl. Eftir u.þ.b. 4 km göngu er komið að Nyrðri-Emstruá. Brú var byggð yfir hana 1975. Framundan eru Útigönguhöfðar tveir. Á milli þeirra liggur leið okkar. Nú líður ekki á löngu þar til við stöndum á brúninni ofan skálans í Botnum. (40 gistirými, GPS 63°45.980 - 19°22.480) Upplögð kvöldganga er vestur í Markarfljótsgljúfur.
4. áfangi: Emstrur (Botnar) - Þórsmörk
Vegalengd 15 km
Áætlaður göngutími 6-7 klst
Lóðrétt lækkun 300 m
Þar sem Syðri-Emstruárgljúfrið nær langleiðina inn að Entujökli verðum við að byrja á því að taka á okkur talsverðan krók áður en hin eiginlega ganga suður Almenninga hefst. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni á Syðri-Emstruánni. Farið varlega. Við ármótin á Markarfljóti og Syðri-Emstruá er sjálfsagt að ganga fram á gljúfurbarminn. Nú hefst hin eiginlega ganga suður Almenninga. Land breytist þegar komið er fram í Úthólma suður við Ljósá. Þar rennur áin í fallegu gljúfri sem víða er vaxið birki og blómum. Sunnan Kápu er Þröngá næst okkur. Hana verðum að vaða. Sjálfsagt er að ganga hönd í hönd og hleypa undan straumi. Þröngá skilur á milli Þórsmerkur og Almenninga. Þaðan er rúmlega 30 mín. gangur suður í Skagfjörðsskála í Langadal á Þórsmörk. (75 gistirými, GPS 63°40.960 - 19°30.890) Síðasti spölurinn er skemmtilegur, enda hlýleg tilbreyting að ganga í skóglendi eftir gróðursnautt hálendið, sem nú er að baki.