Laus sæti í ferðina: Framhjágangan mikla, I. hluti. Í fótspor Þórbergs Þórðarsonar

Ferðin Framhjágangan mikla, I. hluti. Í fótspor Þórbergs Þórðarsonar er farin dagana 22.-26. júlí. 5 dagar

Fararstjórar: Eva Benediktsdóttir og Baldur Sigurðsson

Genginn er fyrsti hluti frægrar göngu Þórbergs Þórðarsonar þegar hann ætlaði að banka uppá hjá elskunni sinni á Bæ í Hrútafirði. Hann stakk af frá borði farþegaskipsins Hólar í Norðurfirði og lagði á heiðarnar suður eftir. Þegar hann kom að Bæ þá brást honum kjarkur og hélt ferð sinni áfram fótgangandi alla leið til Reykjavíkur.

kjarkur og hélt ferð sinni áfram fótgangandi alla leið til Reykjavíkur.

1. dagur, fimmtudagur: Þátttakendur koma á einkabílum að Óspakseyri í Bitrufirði. Þaðan fer rúta kl. 15 og ekur hópnum til Norðurfjarðar. Eldað sameiginlega og gist að Valgeirsstöðum.

2. dagur: Gengið frá Norðurfirði fyrir Hlíðarhúsafjall, um Trékyllisvík. Þaðan upp frá Árnesi og yfir Göngumannaskarð til Reykjafjarðar og í Djúpuvík. Svefnpokagisting í Djúpuvík. Á Hótel Djúpuvík er kvöldmatur, morgunmatur og nesti fyrir næsta dag.

3. dagur: Gengin Trékyllisheiði frá Djúpuvík og niður í Steingrímsfjörð (22 km). Eftir stikl yfir ósa í botni Steingrímsfjarðar verður fólk selflutt til Hólmavíkur. Þar er svefnpokagisting, kvöldverður, mogunverður og nesti fyrir næsta dag.

4. dagur: Hópurinn selfluttur/gengur frá Hólmavík með viðkomu á Sauðfjársetrinu að Sævangi. Þaðan er gengin símalínuleið Þórbergs upp frá Heydalsá, austan Spákonufells og niður að Fjarðarhorni í Kollafirði. Svefnpokagisting í Kollafirði. Kvöldverður, morgunverður og nesti.

5. dagur: Gengið yfir Bitruháls frá Stóra-Fjarðarhorni og komið niður að Óspakseyri við Bitrufjörð, þar sem bílar bíða eigenda sinna.

Verð: 56.000 / 61.000

Innifalið í verði: Gisting í svefnpokaplássi, 3 x kvöldverður, 3 x morgunverður og 3 x nesti. Rúta frá Óspakseyri í Norðurfjörð, akstur innan héraðs og fararstjórn. Sameiginlegur kvöldverður fyrsta kvöldið, morgunverður næsta dags og nesti ekki innifalið í verði.

Framhjágangan, fyrsti hluti
frá Norðurfirði til Óspakseyrar, 22. - 26. júlí, 2010

Framhjágangan 2010--2012 er farin til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni og formæðrum okkar  og feðrum á Íslandi sem einatt ferðuðust milli landshluta og byggðarlaga á tveimur jafnfljótum. Það eru innan við eitt hundað ár síðan þessi ferðamáti var sá eini sem stóð til boða þeim hestlausu.

Fáum göngum hefur verið lýst jafn vel og framhjágöngu Þórbergs, og hún kemur víða við í verkum hans. Hann hélt dagbók á leiðinni, þar sem veðri er lýst nákvæmlega og tíundað hvernær hann hóf göngu dag hvern og hvenær hann kom í áfangastað.  Í Íslenskum aðli  fær landslagið líf. við kynnumst hugrenningum ungs manns á fyrstu árum síðustu aldar og fólkinu sem hann hitti og spjallaði við.

Þórbergur gekk leiðina frá Norðurfirði suður í Reykjavík á tólf dögum og það gerum við líka. Við skiptum þó göngunni upp í þrjá hluta, fyrstu fjórar dagleiðirnar verða gengnar í ár, næstu fjórar næsta ár, og síðustu fjórar dagleiðirnar árið 2012, réttum hundrað árum eftir göngu Þórbergs.

Í fyrsta hluta göngunnar kynnumst við þeirri leið sem farin var öldum saman milli bæja og kaupstaða á Ströndum um heiðar og fjallaskörð, ólíkt þeirri leið sem nú er farin meðfram strandlengjunni. Áður en Þórbergur lagði af stað hitti hann gamlan landpóst, sem lýsti fyrir honum leiðinni „út í ystu æsar". Fetað verður í fótspor hans eftir föngum, stoppað þar sem hann stoppaði og hugsað til fólksins á bæjunum þar sem hann gisti eða „beið eftir kaffi".

Þórbergur var mikill göngumaður, hann fór hratt yfir, var léttur á sér og ekki þyngdi hann mikill farangur. Þar sem gististaðir hans eru víða farnir í eyði eða ekki lengur næturgisting í boði, ókeypis eða seld fyrir sjötíuogfimm aura, þurfum við að gista í svefnpokaplássum þar sem slíka gistingu er að fá nálægt þeim stöðum sem hann gisti fyrir hundrað árum.

Í anda Þórbergs gerum við Müllersæfingar kvölds og morgna til að liðka okkur, og þeir sem treysta sér í sjóböð munu fá tækifæri til þess. Söngbók Þórbergs verður notuð til að ná úr fólki hrollinum.

1. dagur. Fimmtudagur 22. júlí.

Þátttakendur koma á eigin vegum í Bitrufjörð. Þaðan er ekið með rútu í Norðurfjörð og gist í húsi Ferðafélagsins að Valgeirsstöðum.

2. dagur. Föstudagur 23. júlí. Frá Norðurfirði í Reykjarfjörð.

Úr dagbók Þórbergs 1912:

"Sunnudagurinn 29. sept.

Loft stórskýjað fram til kl. 1 e.h.; síðan smáskýjað. Fram til kl. 6 e.h. er vindur af s.s.v.; síðan logn. Hlýtt veður.

Kl. 1 e.h. komu Hólar á Norðurfjörð og lögðust þar fyrir akkerum.

Þessi ráðstöfun skipstjórans kom mér algerlega á óvart. Hann hafði ráðgert á Akureyri að fara frá Blönduósi til Hvammstanga og þaðan til Borðeyrar. Þar ætlaði eg á land og ganga síðan suður í Borgarnes.

Eg varð alveg forviða, er eg sá að við vórum komnir til Norðurfjarðar. Tók eg þá saman dót mitt í súru skapi og fór í land án þess að kveðja kong né prest. Þegar eg kom í land á Norðurfirði, keypti eg mér máltíð á bæ einum þar við fjarðarbotninn. Eigi var hann margbrotinn maturinn sá; það var að eins skyrhræringur og mjólk. Þar hitti eg mann vestan af Ísafirði, er lengi hafði farið póstferðir um Strandasýslu. Eg spurði hann nákvæmlega um veginn suður á Borðeyri, og gaf hann mér greið svör og skír. Mér leist vegurinn ekki ógurlegur. Þess vegna afréð eg að fara gangandi suður þangað. Kl. 3½ hélt eg af stað og gekk sem leið liggur í Trékyllisvík. Kl. 4½ kom að Árnesi í Trékyllisvík. Þar drakk eg kaffi og fekk mér ferðapoka. Þaðan hélt ég yfir svo kolluð Göngumannaskörð yfir í Reykjarfjörð, og kom að Reykjafjarðarbæ kl. 7. 40´ e.h. Þar gisti eg um nóttina.

Ferðin yfir skörðin var einstaklega skemtileg. Veðrið var einstaklega fagurt, loft heiðskírt og tunglsljós. Sálarástand mitt með betra móti. Fólkið á bænum einstaklega viðkunnanlegt. Mér þótti einstaklega fallegt í Trékyllisvík og einnig í Reykjarfirði. Næturgreiðinn var mér veittur ókeypis."

Genginn verður vegurinn „út með Norðurfirði sunnanmegin" fyrir Hlíðarhúsafjall að Árnesi í Trékyllisvík. Þar er Kört, safn sveitarinnar, sem vert er að skoða. Þaðan er haldið á fjallið upp í Göngumannaskörð og við verðum komin í Reykjarfjörð síðdegis. Þórbergur segir frá komu sinni í Reykjarfjörð til frú Karólínu Fabínu Söebeck Thorarensen í Bréfi til Láru. Þar kemur hann sprengmóður eftir að hafa hlaupið undan fjörulalla síðasta spölinn inn fjörðinn, en Karólína lét bera fyrir hann mat "á fimmtán krystalsdiskum þríhyrndum" og veitti honum gistingu. Við gistum hins vegar hjá Evu Sigurbjörnsdóttur og fjölskyldu hennar á Hótel Djúpuvík. Þar verður kvöldmatur, síðan rölt um staðinn og skoðaðar leifar gömlu verksmiðjunnar.

Vegalengdir: Frá Valgeirsstöðum að Árnesi 7 km, yfir Göngumannaskörð 7 km og hækkun 340 m, fyrir fjörðinn að Hótel Djúpuvík 8 km.

3. dagur. Laugardagur 24. júlí. Frá Reykjarfirði í Steingrímsfjörð.

Úr dagbók Þórbergs 1912:

"Mánudagurinn 30. sept.

Loft léttskýjað fram til kl. 3 e.h.; kl. 3 - 5 er þoka; síðan er loft alskýjað. Logn. Andkalt.

Kl. 9 f.h. kvaddi ég fólkið í Reykjarfirði og gekk sem leið liggur að Kjós. Sá bær stendur við Reykjarfjarðarbotn sunnan verðan. Þar fekk eg leiðsögn upp á Trékyllisheiði.

Kl. 10 f.h. lagði eg heiðina og gekk í hægðun mínum. Kl. 3. 40´ kom eg að Bólsstað í Steingrímsfirði og drakk þar kaffi. Þaðan hélt eg  að Ósi í Steingrímsfirði. Þangað kom ég kl. 7½ og gisti þar. Næturgreiðinn kostaði 0,75 aur."

Lagt verður af stað frá Hótel Djúpuvík, sem staðsett er örlítið utar í firðinum en Kjós. Farið er sem leið liggur upp Kjósarhjallana og yfir Kjósará, síðan er gengið eftir vörðum sem liggja yfir heiðina alla leið. Heiðin er ekki há, og enginn bratti sem neinu nemur. Nokkur hluti leiðarinnar er „ein óslitin apalurð", gróðursnauð veröld, og fannir sitja kannski eftir frá vetrinum þótt komið verði hásumar. Vaða þarf Goðdalsá, og er gott að hafa vaðskó meðferðis.  Þegar hallar undan fæti að sunnanverðu eykst gróður og fuglakvak, síðasta varðan er við gamlan veg sem liggur niður að Bólstað, þar verður haldið niður grösuga hlíðina og áð. Selflutt verður frá Bólstað á Hólmavík í bíl, en vitanlega er frjálst að ganga að Ósi eða alla leið á Hólmavík. Þórbergur var heppinn á sínum tíma því það var stórstreymt 29. september árið 1912, og háfjara milli kl. 4 og 5, svo hann hefur getað stytt sér leið fyrir fjarðarbotninn yfir leirurnar. Matur á Café Riis í Hólmavík. Gisting, morgunmatur og nesti fyrir næsta dag að Gistiheimilinu Borgarbraut.

Vegalengdin frá Djúpuvík að Bólstað er 22 km, hækkun 450 m.

4. dagur. Sunnudagur 25. júlí. Frá Hólmavík að Broddanesi í Kollafirði

Þórbergur skrifar í dagbók sína þriðjudaginn 1. október 1912:

"Loft skýjað fram til kl. 6 e.h.; síðan stórskýjað. Andvari af n.a.  Andkalt.

Kl. 8 f.h. hélt eg af stað frá Ósi og gekk sem leið liggur út með Steingrímsfirði. Kom að Húsavík og drakk þar kaffi. Hélt síðan áfram og gekk yfir Kollafjarðarháls eftir símalínunni. Á hálsinum var þoka og hráslagi. Kl.  6½ kom eg að Stóra-fjarðarhorni í Kollafirði og gisti þar. Næturgreiðinn kostaði 0.50 aur."

Við byrjum daginn á því að láta skutla okkur að sauðfjársetrinu í Steingrímsfirði. Það er til húsa í gamla félagsheimilinu Sævangi, sem á síðari árum er þekktast fyrir árlegt hrútaþukl. Þaðan þurfum við ekki að ganga nema spölkorn út með firðinum  og yfir Heydalsá áður en við leggjum á „Kollafjarðarháls" sem Þórbergur kallar svo. Það örnefni, austan Spákonufells, er ekki til í munni heimamanna og símalínan sem Þórbergur fylgdi er nú horfin.

Á Stóra-Fjarðarhorni er ekki gisting fyrir heilan hóp svo við göngum eða látum selflytja okkur út að Broddanesi þar sem við gistum í skólahúsnæðinu og höldum glæsilega grillmáltíð. Ef veðrið er gott göngum við út í Stigavík og njótum kvöldkyrrðar eða sólarupprásar við klettana Brodda, gerum Müllersæfingar og einhver segir draugasögur að hætti Þórbergs.

Vegalengd frá Sauðfjársetrinu að Stóra-Fjarðarhorni er 13 km, en 7 km bætast við út að Broddanesi.

5. dagur. Mánudagur 26. júlí. Frá Broddanesi að Óspakseyri

Þórbergur skrifar í dagbók sína miðvikudaginn 2. október 1912:

"Loft skýjað fram til kl. 12. a.h.; kl. 12 - 5 er loft léttskýjað; síðan alskýjað.

Fram til kl. 1 e.h. er kaldi af s.v.; síðan kul. Hlýtt veður.

Kl. 9 f.h. hélt eg af stað frá Stóra - Fjarðarhorni og gekk yfir Bitruháls. Kl. 12 kom eg að Gröf í Bitrufirði og beið þar eftir kaffi. Þaðan hélt eg til Óspakseyrar; gekk síðan inn fyrir fjarðarbotn og suður yfir Stikuháls ; kom að Guðlaugsvík kl. 7 e.h. og gisti þar. Næturgreiðinn kostaði 1.00 kr."

Við byrjum daginn á að koma okkur aftur inn á gönguleið Þórbergs frá Stóra-Fjarðarhorni og göngum yfir Bitruháls. Af götusneiðingum gjóum við augum Þórbergs niður í Mókollsdal, þar sem bæjarrústirnar eru kannski enn, og postulínsleirinn sem aldrei hefur  verið unninn. Komið verður niður hjá Gröf, en þar hefur heimsókn Þórbergs geymst í munnmælum ábúenda mann fram af manni. Við reiknum með að ljúka göngunni um miðjan dag á Óspakseyri þar sem bílarnir bíða eftir okkur. Styst er í sundlaug að Reykjum í Hrútafirði og þangað er innan við klukkustundar akstur.

Vegalengd: Frá Stóra-Fjarðarhorni að Gröf eru 10 km, þaðan eru 3 km að Óspakseyri.

Í næsta áfanga Framhjágöngunnar, sem farinn verður sumarið 2011, verður byrjað með því að ganga til Guðlaugsvíkur.

Heimildir:

Óútgefnar heimildir

Dagbækur Þórbergs Þórðarsonar, varðveittar í Þjóðarbókhlöðunni, skrifað upp af EB með stafsetningu Þórbergs.

Þorsteinn Sæmundsson, hjá Almanaki Háskólans, Tæknigarði, Reykjavík. Upplýsingar um flóð og fjöru 30. september 1912.

Útgefnar heimildir

Þórbergur Þórðarson. Íslenskur aðall, Mál og menning, 6. prentun 1981. Bls. 166 - 171.

Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru, Mál og menning, 1974. Bls. 18 - 20.

Haukur Jóhannesson: Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum. Í  Í strandbyggðum norðan lands og vestan, Ferðafélag Íslands, árbók 2000. Bls. 45 - 118.

Gert í maí 2010,

Eva Benediktsdóttir og Baldur Sigurðsson.