Leggjabrjótur, forn þjóðleið á 17. júní

Gengin forn þjóðleið frá Svartagili í Þingvallasveit, inn eftir Öxarárdal, yfir Leggjabrjót og niður að Stóra-Botni í Botnsdal í Hvalfirði. Nánar í: Gönguleiðir upp úr botni Hvalfjarðar, útg. FÍ 2007

Göngutími 5 -  6 klst.

Fararstjóri: Leifur Þorsteinsson.

Verð kr. 6.000 / 8.000

Innifalið: Rúta og fararstjórn

Skráning og greiðsla fyrir lok miðvikudags 16. júní.

Fortíðin kallar

Sérstaklega skemmtileg tegund af ferðalögum og útivist felst í að ganga fornar þjóðleiðir og götur milli byggða og leggja eyrun við niði sögunnar sem hvíslar lágt að göngumanni gleymdum sögum.

Ein slíkra leiða er Leggjabrjótur sem liggur úr Hvalfjarðarbotni yfir að Þingvöllum eða öfugt. Ferðafélag Íslands hefur nokkur undanfarin ár boðið upp á gönguferð eftir þessari fornu alfaraleið á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þessar ferðir hafa verið gríðarlega vel sóttar og virðast Íslendingar vera fúsir til að tengja sig við sögu genginna kynslóða um leið og þeir fagna sjálfstæði þjóðarinnar.

Þegar farið var um Leggjabrjót var genginn Langistígur upp úr Almannagjá og síðan framhjá Svartagili og vestur Öxarárdal. Síðan var haldið meðfram Súlnaá og eftir dalverpi milli Kjalar og Botnssúlna framhjá Myrkavatni og niður í Botnsdal í Hvalfirði eða Brynjudal eftir því hvert menn voru að fara.

Langt fram á miðaldir lögðu kaupmenn skipum sínum í Maríuhöfn sem er fremst í nesinu milli Laxárvogs og Hvalfjarðar framundan Reynivallahálsi í Kjós. Þaðan hefur verið stutt að fara á Þingvöll og falbjóða þingheimi varning langt að kominn. Um þetta fjallar m.a. þjóðsagan um það þegar Einar Herjólfsson kom með skip sitt í Hvalfjörð árið 1402 og rakti sundur klæði sem báru í sér sóttkveikjur Svartadauða. En Leggjabrjótur geymir einnig gleðispor þeirra sem fluttu góðar fréttir, komu heim eftir langa dvöl og hröðuðu sér í fang ástvina. Víða meðfram leiðinni sjást vörður og vörðubrot á ýmsum aldri.

Um þetta geta göngumenn hugsað þegar þær ganga milli tignarlegra fjallanna og fara þar á meðal framhjá Biskupskeldu við Súlnaá sem þótti sérlega erfið yfirferðar og við hana er tengd forn lausavísa kennd séra Jóni Þorlákssyni.

 

Tunnan valt og úr henni allt

ofan í djúpa keldu.

Skulfu lönd og brustu bönd

en botngjarðirnar héldu.

 

Á þessu sumri fagnar Ferðafélag Íslands þjóðhátíð á Leggjabrjót að vanda og verður gengið frá Svartagili í Þingvallasveit sem leið liggur yfir að Stóra-Botni í Botnsdal í Hvalfirði. Þetta er létt og þægileg ganga sem með réttu má kalla við hæfi allrar fjölskyldunnar.

Fararstjóri er eins og undanfarin ár Leifur Þorsteinsson en Leifur hefur starfað með Ferðafélagi Íslands í áratugi og er sannkallaður hafsjór af fróðleik um leiðir, land og sögu. Leifur er höfundur ritsins: Gönguleiðir upp úr botni Hvalfjarðar, sem FÍ gaf út 2007. Óhætt er að lofa ósvikinni Ferðafélagsstemningu þar sem kynslóðirnar sameinast í ást sinni á landinu, hollri útivist, sögu og ferðalögum.