Línudans í Landmannalaugum

Laugar-dans

Mannlífið í Landmannalaugum er að jafnaði afar litríkt og fjölbreytt. En línudans að morgni dags fyrir fjallgöngu hafði ekki sést þar áður fyrr en nú um helgina. Þar var á ferð hinn lífsglaði og skrautlegi 52 fjalla hópur á vegum Ferðafélags Íslands að safna fjöllum.
Fimm tindar voru sigraðir um helgina en áður en lagt var á brattann á Bláhnúk á sunnudagsmorgni stjórnaði einn úr hópnum, Davíð Örn Kjartansson, línudansi á planinu fyrir utan.
Þar var dansað af krafti og tónlistin bergmálaði í fjöllunum umhverfis Laugar sem skörtuðu sínu fegursta í stilltu haustveðri og sólskini. 88 göngugarpar fóru alsælir heim eftir að hafa smitast fyrir lífstíð af töfrum náttúrunnar á þessu fagra svæði.
52 fjalla verkefnið nýtur feikilegra vinsælda og hafa göngugarpar tekist á við náttúruna í margskonar veðrum allt frá áramótum og eflst við hverja raun.