Í maí og júní var verkefni í gangi hjá FÍ sem bar heitið FÍ Göngur og gaman og var í umsjón Edithar Gunnarsdóttur og Örlygs Sigurjónssónar. Heiðrún Ólafsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir aðstoðuðu við leiðsögn í verkefninu sem gekk út á að heimsækja ótal tinda Esju sem fæstir ganga allajafna á.
Í síðustu göngu hópsins fór Jóna Svandís Þorvaldsdóttir, einn þátttakenda, með þennan frábæra frumsamda ljóðabálk sem er hér birtur með hennar leyfi.
Til útskýringar á þriðja versi þá hófst fyrsta gangan hófst við vigtarplanið við vesturenda Esju.
Ferðaljóð gönguhópsins Göngur og gaman – 27. júní 2020
Nú ætla ég að segja þessa sögu þér
en segjum nú svo að enginn trúi mér
Það var hér fyrr í vor ég lagði upp í ferð
og segja ykkur frá henni ég verð
Eftir erfiðan vetur loksins kom að vori
og löngun mín var til að spretta úr spori
Ég skráði mig í gönguhópinn góða
sem Ferðafélag Íslands vildi bjóða
Við lögðum upp í göngu nokkur saman
Mér var sagt það myndi verða gaman
en annað kom á daginn eins og sagan segir frá
og hlustaðu nú vel því að hún er grimm og grá
Með fiðrildi í maga ég hélt af stað að vigt
Stressið mitt var gríðarlegt – næstum óheilbrigt
Skelfingu lostin lagði ég vigtina við
fararstjórarnir mynduðu talningarhlið
svo enginn þurfti vigtina að stíga á
þungu fargi af mér létti þá
því hrædd var ég orðin um að þurfa að sýna
kórónuveiru-kílóatöluna mína.
Reglur voru settar um eitt og annað
Sumum fannst fullmikið vera bannað
Enn var samkomubann á okkar landi
þar sem hérna ríkti covid fjandi
tveggja metra fjarlægð skyldum halda
og engu róti á mosabreiðum valda
Markmiðið var helst að reyna að njóta
Fram úr Ölla mátti ekki þjóta
Með tvo metra á milli – en ganga saman
og umfram allt að hafa svolítið gaman.
Svo lögðum við af stað í langri röð
Mér fannst gangan vera heldur hröð
þó sumir væru glaðlegir í framan
þá fannst mér ekkert sérstaklega gaman
Upp var gengið – EEElskan mín, ó guð
þvílíkt og annað eins heljarinnar puð
En loks var numið staðar til að blása
og ég hélt það væri komin nestispása
en það var bara misskilningur minn
ég fengi ekki að borða enn um sinn
Það var þó gott að fækka fötum smá
og heyra staðreyndir um Blikdalsá
Síðan var gengið áfram upp á kambinn
þá var ég búin með allt vatnið… skrambinn
Þurr í munni, másandi og móð
náði ég toppnum þar sem Edith stóð
Hún ljómaði eins og sólin, glæsidaman
fannst henni þetta virkilega gaman?
Loks kom ljós í myrkri þeirrar göngu
ríkiskaffistopp ferðalanganna svöngu
Ég dró úr mínu pússi góðan brúsa
Nú skyldi sko sitja vel og djúsa
en allt í einu Kolla spratt af stað,
hrinti mér næstum um koll við það
og hvarf svo sjónum okkar í einum hvelli
ég sá hana stefna í átt að næsta felli
Við sem eftir sátum vorum hissa
en í ljós kom að hún þurfti bara að pissa.
Við fréttum að Esjan væri sjötug kona
tignarleg og trú ég þori að vona
Við lærðum líka um þjóðsögur og allt
Veðrið var gott, þó á toppnum væri kalt
Skyggni var þó hér með besta móti
en ég fékk rass-særi af því að sitja á grjóti
Buguð ég spurði Heiðrúnu, rjóð í framan
„Er það núna sem það fer að verða gaman?“
En þessi spurning mætti bara hlátri
og ég lagði af stað á Smáþúfur í gráti
en er ég leit loks upp í gegnum tárin
fannst mér eins og lækju af mér árin
því er ég komst á toppinn og snerti vörðu
fannst mér ég ekki lengur snerta jörðu
heldur svífa í loftinu yfir fjöllum
landi, sjó og konum bæði og köllum
sem stóðu þarna á stærri þúfunni saman
og það var ekki laust við að það væri orðið gaman
Niðurgangan gekk svo vel að vanda
ég var glöð að ná loksins að anda.
Teygjuæfingar gerðum niðri og þögðum
náðum jafnvægi og „já takk“ sögðum
Í bæinn ók ég heldur þunn og þreytt
en hugsaði þó eingöngu um eitt
Því þó ég hafi staðið þarna í ströngu
Þá hlakkaði ég mjög til næstu göngu
Og nú erum við hér á leiðarenda
góðar kveðjur frá mér vil ég senda
Ferðafélaginu verð að þakka
fyrir þennan góða göngupakka
Áskoranir, glens og góðar stundir
þetta hafa verið gleðifundir
Fararstjórar, ferðalangar góðir
Hafa hlýtt á orð mín heldur hljóðir
Öll þau vilja segja sögu sína
En svona vildi ég fá að hafa mína.