Göngugarpar munu sameinast um að búa til Ljósafoss niður Esjuna í dag og hefst ganga þeirra klukkan 14:30. Tilgangurinn með göngunni er að safna fé fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein eða blóðsjúkdóma og aðstandendur þeirra, en félagið fagnar í ár fimm ára afmæli sínu. Af því tilefni rennur allur ágóði af kaffisölu í Esjustofu til félagsins í dag.
Milli kl. 16:00-17:00 er takmarkið að búa til svokallaðan Ljósafoss frá toppi Esjunnar og niður að rótum. Þá verða allir göngumenn beðnir um að hafa meðferðis vasa- eða ennisljós eða kyndla á leiðinni niður í rökkrinu sem þá verður skollið á.