Nýtt met var slegið á Úlfarsfelli í fimmtu og síðustu morgungöngu Ferðafélags Íslands á þessu ári. Alls reyndust 115 göngugarpar vera mættir í stífum norðanvindi en björtu og köldu veðri. Varla reyndist stætt á toppi fjallsins svo hópurinn forðaði sér í skjól neðar í hlíðinni og þar gæddu menn sér á morgunverði í boði FÍ og hlýddu á söng Karlakórs Kjalnesinga en vaskur hópur úr kórnum mætti á fjallið og söng undir stjórn Páls Helgasonar bæði Hærra minn Guð til þín og Logn og blíða sumarsól en hvorttveggja þótti sérlega vel viðeigandi.
Síðan stigu 35 fjallagarpar fram og þágu viðurkenningu frá Ferðafélaginu fyrir að hafa mætt í allar fimm morgungöngurnar þetta árið. Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri afhentu þeim viðurkenningarskjal, dagsferð að eigin vali með félaginu og eintak af bókinni Gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.
Fararstjórar í morgungöngum 2009 voru Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir