Magnaður leiðangur á Sveinstind - ferðasaga

Ferðafélag Íslands   Sveinstindur - Ærfjallsleið.


Fararstjórar: Örvar og Ævar Aðalsteinssynir

Línustjórar: Pétur Ásbjörnsson og Höskuldur Björnsson.

  • 4 skór Löng og brött dagsferð á jökul.
  • Göngutími 21 tímar.  13 tímar upp. 8 tímar niður.
  • 32 km fram og til baka. Hækkun 2000m.

 Dagsetning:   2 júní.

 Lýsing á ferðinni:

Krefjandi og fjölbreitt ganga á Sveinstind 2044m. Hann er næst hæsti tindur Öræfajökuls og er í austurbrún öskjunnar. Fáfarin útsýnisleið um hrikalegt umhverfi hárra fjalla og skriðjökla. Veðurspá var góð og rættist hún vel. Sól og hægur vindur var allan daginn.

Sveinstindur-kort-400

Ekið var á einkabílum í Öræfasveit og gist þar á eigin vegum. Lagt af stað kl. 01.00. frá Fjallsárlóni  vestan við  Breiðamerkursand. Gengið austan við lónið upp að Fjallsjökli og þegar komið er að jökulá sem rennur úr jöklinum þarf að fara upp á skriðjökulinn til að sleppa við að vaða ána. Þar er farið á brodda og  gengið upp fyrir útfall árinnar um 1, 5 km. Þá er haldið upp gróið  Ærfjallið en snjólína var frekar neðarlega eða í um 500m. Þar tók við erfitt færi því skel var á nýlegri djúpri fönn sem hélt illa göngumönnum. Var því ferðahraðinn heldur minni en búist hafði verið við. 

Sveinstindur1-400

 Í 1000m liggur leiðin upp undir hrygg sem leiðir göngumenn alla leið upp á Sveinstind. Farið er fram hjá Drangakletti og fleiri strýtum sem standa upp úr hryggnum og gera þessa leið stórbrotna og fjölbreytta. Einnig er talsvert af sprungum á leiðinni sem fara verður yfir og geri það leiðina torfarna þegar kemur fram á sumar og snjórinn fer að minnka.Útsýnið af hryggnum er glæsilegt yfir Hrútárjökul að vestan og Fjallsjökul að austan en þessir skriðjöklar ganga niður sitt hvoru megin. Allmargar brattar brekkur þarf að ganga og sumstaðar er farið á mjóum hryggnum upp brattar fannir. Að lokum er komið upp á nafnlausan hnjúk  og er þá stutt upp á Öræfajökulsöskjuna og upp á Sveinstind .

Sveinstindur3-400

Þar nutu menn útsýnis m.a.  yfir á Hvannadalshnúk sem reis í norðvestri.  Í hópnum voru 19 farþegar og kom fólkið víðsvegar af landinu. Meðal annarra voru nokkrir Hornfirðingar með í för sem voru að láta gamlan draum rætast eftir að hafa  haft Sveinstind fyrir augum alla tíð. Þau voru vel kunnug og sögðu félögunum frá helstu örnefnum og fjallsgnípum sem sást vel til á þessum frábæra útsýnisstað. Farin var sama leið niður og á niðurleiðinn varð að fara varlega vegna mikils bratta og nokkurra sprungna sem komu í ljós í mikilli snjósólbráð sem tafði för. Allt gekk þó vel og komust allir heilir aftur niður að Fjallsárlóni þar sem bílarnir voru.

Sveinstindur2-400

Fararstjórar: Ævar og  Örvar Aðalsteinssynir.

Línustjórar: Pétur Ásbjörnsson og Höskuldur Björnsson.