Runninn er upp tími gönguferða yfir Fimmvörðuháls á vegum FÍ og var fyrsta ferðin farin um síðustu helgi undir stjórn Steinunnar Leifsdóttur fararstjóra. Göngugarpar voru sex talsins og að auki var 40 manna hópur í sérferð FÍ á Fimmvörðuhálsi, að ógleymdu fjölskyldu- og göngufólki sem gisti í Skagfjörðsskála og naut hlýviðris og gönguferða í Þórsmörk. Þá er ótalinn sá fjöldi sem gekk Fimmvörðuháls á eigin vegum um á laugardag, bæði innlendir sem erlendir ferðamenn.
Gönguveður á Fimmvörðuhálsi á laugardag hélst gott fyrripart dagsins en síðdegis féllu skúrir á göngufólk og hríðarmugga gerði vart við sig. Flestir voru komnir upp að Baldvinsskála þegar hvessa tók af suðri í þokkabót og má segja að stinningskaldanum hafi tekist að berja fólk í bakið rétt áður en það gekk norður af háhálsinum í betra skjól. Skyggni var ágætt til norðurs og tók Þórsmörkin hlýlega við göngufólkinu eftir dagslanga göngu.
Næsta FÍ ferð á Fimmvörðuháls er 27. -28. júní og sem fyrr verður sameiginleg grillveisla og kvöldvaka í Skagfjörðsskála.