Með drullumall á tánum

Líklegast var drullumallið efst á vinsældalistanum hjá krökkunum sem tóku þátt í Ævintýraferð Ferðafélags barnanna upp á Kjöl um síðustu helgi. Enda notuðu þau hvert gefið tækifæri til að henda af sér skóm og sokkum og vaða og drullumalla. Þau óðu jökulvatnið í Hvítárvatni, fundu hyldjúpan drullupytt við Hvítárnesskálann og við Þverbrekknamúla var fyrr en varði búið að búa til leðju sem hægt var að láta spýtast upp á milli tánna. 

Þessi margvíslega táreynsla var þó ekki það eina sem þótti skemmtilegt í ferðinni því bátarnir, jökulgangan, tína ber og búa til göngustafi stóð líka upp úr hjá mörgum þó að yngsti þátttakandinn segði að það hefði ,,bara verið skemmtilegast að ganga“!

Drullumallað í ÞverbrekknamúlaDrullumallað í Hvítárnesi

Alls þrettán krakkar, á aldrinum sex til fimmtán ára, tóku þátt í þessari þriggja daga Kjalferð og tóku með sér níu foreldra. Í rútunni frá Reykjavík á föstudagsmorgni var byrjað var á því að fræðast um hálftröllið Bergþór í Bláfelli og að sjálfsögðu var stoppað á Bláfellshálsi til að setja stein í stærstu vörðu á Íslandi. Hópurinn fékk svo óvæntan göngutúr niður að Hvítárvatni því ákveðið var að láta ekki á það reyna hvort að gamla trébrúin við vatnið myndi duga eða drepast við það að stór og þung rútan hlussaðist yfir hana. Við vatnið biðu tveir bátar frá fyrirtækinu Hvítárvatni ehf. og siglt var sem leið lá inn að Langjökli. Þar fengu allir ísaxir áður en haldið var á jökul og axirnar settar í notkun, meðal annars með því að höggva spor. Að því loknu var siglt inn í Karlsdrátt, þar sem áð var í magnaðri gróðursæld við kristaltærar uppsprettur og bústin bláber.

Stafagerð

Eftir að krakkarnir höfðu prufað að vaða í Hvítárvatni í lok siglingarinnar hélt hópurinn í Hvítárnesskálann og hreiðraði um sig þar. Þá var tekið til við að búa til göngustafi í öllum regnbogans litum, grilla kvöldmat og að sjálfsögðu drullumalla! Skálinn er eins og hannaður fyrir boltaleikinn ,,yfir“ svo hann var spilaður fram eftir kvöldi eða allt þar til kvöldvakan tók við með tilheyrandi kakódrykkju, gítarspili og söng að ógleymdum öllum draugasögunum sem fylgja þessum elsta skála Ferðafélags Íslands.


Stærsta varða ÍslandsBátsferð

Snemma næsta morgun var farangrinum hlaðið í trússbílinn hjá Arnþóri og gengið af stað í glimrandi veðri eftir gömlu þjóðleiðinni um Kjalveg. Krakkarnir bjuggu til sínar eigin þjóðsögur um Baldheiði, Hrútfellið og Kerlingarfjöll og girnileg krækiber og bláber töfðu gönguna lítilsháttar. Leiðin liggur um gróin svæði meðfram bökkum Fúlukvíslar allt þar til kemur að göngubrú sem liggur yfir þá Fúlu og beinir þreyttum fótum í skálann í Þverbrekknamúla. Þar voru krakkarnir ekki lengi að finna nýtt drullusvað til að sullast í, á meðan hinir fullorðnu bjástruðu við farangur og matseld. Arnþór hafði til mikillar lukku komist með trússið yfir Fúlukvísl svo ekki þurfti að bera dótið langa leið í bústað. Eftir matinn var kveikt upp í varðeldi og sykurpúðar grillaðir á teini á meðan kvöldsólin roðagyllti Hrútfellið. Að því loknu voru allir fljótir að sofna á sitt græna eyra undir hörmungarsögu Reynistaðabræðra.

Barnablóm á Kili

Næsta dag var Arnþór trússari kvaddur og haldið á fótinn upp Þverbrekkurnar með viðkomu í uppþornuðum árfarvegi sem hafði skilið eftir sig grænan hyl og mjúka steina. Þegar upp var komið blasti allur Kjölur við; Hrútfellið góða, Langjökull, Jökulkrókurinn, Þjófadalir, Strýtur, Kjalfell og Kerlingarfjöll. Blíðviðrið lék við göngumenn sem fetuðu niður snarbratta skriðu að svokölluðum Hlaupum þar sem gljúfurbarmar Fúlukvíslar standa svo þétt saman að hægt væri að hlaupa yfir þá. Það var þó ekki gert heldur gengið yfir trausta göngubrú. Á leiðinni inn í Þjófadali mætti hópurinn fjölmennum hestaleiðangri og vék prúðmannlega úr leið þar til hestarnir höfðu hlaupið framhjá, eins og góðir fjallasiðir gera ráð fyrir.

HópurinnÁ Hveravöllum

Á Þröskuldi fyrir ofan Þjófadali beið svo Daði rútubílstjóri eftir leiðangursmönnum og flutti hópinn á Hveravelli þar sem ferðinni var slúttað með sögum af Fjalla Eyvindi, hveraskoðun, hverabaði og pulsuáti. Til Reykjavíkur var ekki komið fyrr en klukkan 11 um kvöldið eða löngu eftir leyfilegan útivistartíma þessara ungu göngugarpa og fjallageita! 

Alls gekk hópurinn um 15 km. leið bæði laugardag og sunnudag eða í tæpa sjö klukkustundir hvorn dag. Í ljós kom að í þessum krökkum býr mikið fjallaþrek, gleði og úthald og það var einstaklega gaman fyrir fararstjórana að fá að kynnast þessum hæfileikaríka hópi sem á pottþétt eftir að taka mörg fjallafótsporin á komandi árum.

Sjáið myndir hérna.