„Samstarf Ferðafélags Íslands við Háskóla Íslands í verkefninu Með fróðleik í fararnesti hefur verið mjög farsælt frá upphafi og því afar vel tekið bæði innan raða Ferðafélagsins og á meðal almennings,'' segir Páll Eysteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands um röð gönguferða sem Háskólinn og Ferðafélagið hafa staðið saman að frá aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011.
„Markmiðið með ferðunum hefur verið eitt frá upphafi, að fólk á öllum aldri fá spennandi valkost til að hreyfa sig í borgarlandinu og fái að auki skemmtilegan fróðleik. Ætlunin var að brydda upp á ferðunum sem nýjum valkosti fyrir fjölskyldur á aldarafmæli Háskóla Íslands, og láta þar við sitja, en vinsældirnar urðu það miklar að ekki var nokkur möguleiki að hætta. Þúsundir hafa enda notið þess að halda í göngur með vísindafólki Háskóla Íslands og reyndum leiðsögumönnum Ferðafélagsins undanfarin átta ár og fengið fróðleik við nánast hvert fótmál,“ segir Páll.
Á árinu 2019 verður farið í sjö ferðir í landi höfuðborgarinnar. Í fyrstu ferðinni verður horft til himins með stjörnumiðlara Háskóla Íslands, Sævari Helga Bragasyni sem leiðir fólk í allan sannleika um norðurljós, svarthol og sólkerfi. Ferðin verður föstudaginn 1. febrúar ef viðrar en þessi ferð er háð því að ský séu ekki á himni.
Páll Guðmundsson segir að sérstaklega hafi verið ánægjulegt að sjá hvernig margar ferðir í þessu samstarfsverkefni hafa náð vel til barna og fjölskyldufólks þar sem leiðsögumenn úr fræðasamfélagi Háskólans hafi miðlað ólíku viðfangsefni hverrar ferðar, af yfirburðarþekkingu. „Slík leiðsögn og miðlun upplýsinga hafa verið öllum þeim sem hafa tekið þátt hvatning til að mæta í fleiri ferðir þar sem fróðleikur, þekking og lærdómur eru leiðarljósið.“
Ef vikið er að öðrum göngum í röðinni á næsta ári má nefna eldfjallagöngu um Búrfellsgjána í endann á mars. Búrfellsgjá er stórkostlegur ævintýraheimur fyrir krakka á öllum aldri með ótal hellum, sprungum, gjótum og gjám. Markmiðið með göngunni um Búrfellsgjána er að vekja áhuga ungmenna og almennings á náttúru, jarðfræði og hollri útivist.
Í byrjun apríl verður heillandi heimur fjörunnar kannaður enda býr margt í þaranum og það verður án vafa spennandi að lyfta steinum þar sem margt kvikt býr undir. Þá verður líka fylgst með fuglum sem hafa flogið heim, margir langan veg, en þeir safna kröftum í fjörum höfuðborgarinnar. Gangan verður í lok apríl.
Ekki má gleyma skordýraskoðun um miðjan júní. Skordýr eru stærsti flokkur dýra í heiminum. Þess vegna verður margt að sjá þegar skimað verður eftir pöddum í göngu sem verður við Elliðaárnar. Þótt fæstum þyki skordýr ýkja fögur eru þau vissulega spennandi og magnað að sjá þau í smásjá sem er partur af gamninu og fróðleiknum. Þótt við höfum fæst áhuga á að borða skordýr þá eru þau fæða dýrategunda sem við neytum, t.d. vatnafiska, og að auki fæða margra fuglategunda. Skordýr frjóvga auk þess allar blómplöntur.
Haustið 2019 verður svo árviss sveppaleit sem er ein þeirra ferða sem hefur notið hvað mestra vinsælda síðustu ár enda eru sveppir sælgæti.
Hringnum verður svo lokað í landnámsgöngu þegar leitað verður svara við því hvort landnámsmennirnir okkar hafi verið víkingar. Gönguferðin verður um slóðir landnema í miðborg Reykjavíkur í lok október þar sem sagnafræðingar og fornleifafræðingar segja okkur frá fyrsta fólkinu sem settist að á Íslandi.
„Í göngunum hefur meinreglan verið sú að ekki hefur mikið reynt á göngufólk enda er ætlunin að fjölskyldur með ung börn fái að njóta og ferðast um á forsendum barnanna,“
Páll segist vonast til að eiga gott samstarf Háskóla Íslands og Ferðafélagsins um ókomin ár en undanfarin ár hefur samstarfið að mestu verið bundið við Ferðafélag barnanna sem er gríðarlega skemmtilegur angi innan Ferðafélagsins.
„Háskóli Íslands er ein af grunnstoðum samfélagsins,“ segir Páll, „og ómetanlegt fyrir Ferðafélag Íslands að eiga samstarf við Háskólann þar sem markmið og gömul og góð gildi fara vel saman.“
Þúsundir hafa notið þess að halda í göngur með vísindafólki Háskóla Íslands og reyndum leiðsögumönnum Ferðafélagsins undanfarin átta ár og fengið fróðleik við nánast hvert fótmál. Göngurnar eru fyrir alla fjölskylduna.
Með fróðleik í fararnesti 1. febrúar, föstudagur
Brottför kl. 20 á einkabílum frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.
Af hverju eru stjörnur mismunandi á litinn og hvers vegna sjást norðurljósin bara stundum? Sævar Helgi Bragason, stjörnumiðlari frá Háskóla Íslands, svarar öllum spurningum um norðurljósin, stjörnurnar og vetrarbrautina í gönguferð sem helguð er himingeimnum. Nauðsynlegt er að klæða sig vel og gott er að taka með sjónauka, nesti og heitt á brúsa. 2 klst.
Ef ekki viðrar til himinskoðunar þennan dag verður ferðinni frestað þar til góðar aðstæður skapast og það auglýst á fésbók og heimasíðu.
Með fróðleik í fararnesti 30. mars, laugardagur
Brottför kl. 10 á einkabílum frá bílastæðinu við Vífilsstaði. Ekið í halarófu inn í Heiðmörk.
Snæbjörn Guðmundsson doktorsnemi í jarðfræði við Háskóla Íslands mun leiða göngu um Búrfellsgjá að gígnum Búrfelli. Við ætlum að fræðast um ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði svo sem eldgos og velta fyrir okkur hvernig ýmis fyrirbæri urðu til. 3 klst.
Muna að klæða sig vel, í góðum skóm með gott nesti.
Með fróðleik í fararnesti 6. apríl, laugardagur
Brottför kl. 11 við bílastæði við Gróttu yst á Seltjarnarnesi.
Við ætlum að skoða ýmsar lífverur fjörunnar, grúska og leita að kröbbum og öðrum smádýrum í skemmtilegri fjöruferð í Gróttu. Þar er fjölbreytt dýra-, fugla- og plöntulíf og ætlar Hildur Magnúsdóttir, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild, að leiða gönguna. Gott er að mæta vel klæddur og í stígvélum og með fötur eða glær ílát til að safna í hinum ýmsu lífverum og auðvitað með gott nesti. 2-3 klst.
Með fróðleik í fararnesti 27. apríl, laugardagur
Brottför kl. 10 / Fjara á höfuðborgarsvæðinu – auglýst sérstaklega síðar á fésbók og heimasíðu.
Þegar farfuglarnir flykkjast heim til Íslands er vorið komið og sumarið á næsta leiti. Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands, og Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiða ferð um fjöru á höfuðborgarsvæðinu þar sem fuglarnir safnast saman. Gott að koma með sjónauka og gjarnan fuglabækur. 2 klst.
Með fróðleik í fararnesti 19. júní, miðvikudagur
Brottför kl. 18:00 við gömlu rafstöðina við Elliðaár.
Hvað leynist í laufinu? Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra á jörðinni og á Íslandi hefur skordýrum fjölgað undanfarin ár af ýmsum ástæðum. Gísli Már Gíslason, skordýrasérfræðingur frá Háskóla Íslands, fræðir okkur um heim skordýranna. Takið með ílát og stækkunargler ef þið eigið.
Hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands og Háskóla unga fólksins.
Með fróðleik í fararnesti 21. ágúst, miðvikudagur
Brottför kl. 17 á einkabílum á bílastæði við Rauðhóla.
Sveppir eru sælgæti en það er betra að þekkja þá góðu frá þeim vondu og eitruðu! Gísli Már Gíslason og fleiri sveppasérfræðingar frá Háskóla Íslands kenna okkur að þekkja matsveppi og aðferðir við að geyma þá og matreiða í fjörugri sveppagönguferð. Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sveppabækur og ílát.
Ekið í halarófu frá bílastæðinu við Rauðhóla lengra inn í Heiðmörkina. 2 klst.
Með fróðleik í fararnesti 19. október, laugardagur
Brottför kl. 10 frá Alþingishúsinu
Voru landnámsmennirnir okkar víkingar, var Ingólfur Arnarson raunverulega til, hvernig var lífið hjá fyrstu Íslendingunum? Hvernig voru föt landnemanna og hvað var í matinn? Gönguferð um slóðir landnema í miðborg Reykjavíkur þar sem sagnafræðingar og fornleifafræðingar segja okkur frá fyrsta fólkinu sem settist að á Íslandi. Þeir munu leitast við að svara öllum þessum spurningum og mörgum fleiri. Gengið verður um svæði þar sem áður voru bæjarstæði landnemanna. Safnast saman framan við Alþingishúsið kl. 10:00. 2 klst.