Með fróðleik í fararnesti 21.apríl

Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, ogHalldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, leiða ferð á slóðir kræklingsins í Hvalfirði. Kræklingi verður safnað og fræðst um hann og verkun hans.

Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, 21. apríl  kl. 10.30. Hægt verður að sameinast þar í bíla. Gert er ráð fyrir að ferðin taki um það bil þrjár klukkustundir að akstrinum í Hvalfjörð meðtöldum.

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.