Með fróðleik í fararnesti - ferðir FÍ og HÍ

Ferðafélag Íslands og Háskóli Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir undir heitinu ,,Með fróðleik í fararnesti, " þar sem leiðsögumenn koma úr röðum Háskóla Íslands.  Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir  að þetta verkefni hafa gengið sérlega vel undanfarin tvö ár og ánægjulegt að samstarfið haldi áfram.

,,Þetta hafa verið mjög góðar og skemmtilegar ferðir þar sem kennarar og vísindamenn í HÍ hafa verið leiðsögumenn og miðlað af þekkingu sinni. Þátttakan hefur verið mjög góð, oft í kringum 100 - 150 manns í hverri ferð og því var það áhugi okkar og HÍ að halda áfram með þessar ferðir, " ´segir Páll.

 Samstarf FÍ og HÍ um þessar fræðandi gönguferðir hófust á aldarafmæli skólans 2011.

 Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskóla Íslands blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess.

 Ferðirnar á næsta ári verða sex talsins og taka flestar um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að koma með börn sín í fuglaskoðunarferð, kræklingaferð og sveppa- og berjaferð.

 

Með fróðleik í fararnesti: Fuglaskoðunarferð 1 skór 

20. apríl, laugardagur

Fararstjóri: Tómas Grétar Gunnarsson.

Brottför: Kl. 10 frá bílastæðinu við Grafarvogskirkju.

Tómas Grétar, sem er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiðir ferð í Grafarvog þar sem farfuglar safnast fyrir á leirunni. Þátttakendur taki með sér sjónauka. Tilvalin ferð fyrir alla fjölskylduna. 2 klst. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ og farin í samvinnu við Ferðafélag barnanna.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Með fróðleik í fararnesti: Kræklingaferð 1 skór

27. apríl, laugardagur

Fararstjórar: Gísli Már Gíslason og Halldór Pálmar Halldórsson.

Brottför: Kl. 10 á einkabílum frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Gísli Már, sem er prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Halldór Pálmar, sem er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, leiða ferð á slóðir kræklingsins í Hvalfirði. Kræklingi verður safnað og fræðst um hann og verkun hans. Þátttakendur taki með sér stígvél og ílát fyrir krækling. Tilvalin ferð fyrir alla fjölskylduna. Um 3 klst. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ og farin í samvinnu við Ferðafélag barnanna.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Með fróðleik í fararnesti: Söguslóðir Háskóla Íslands 1 skór NÝTT

25. maí, laugardagur

Fararstjóri: Guðmundur Hálfdanarson.

Brottför: Kl. 11 frá Alþingishúsinu við Austurvöll.

Guðmundur, sem er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, leiðir gönguferð um söguslóðir Háskóla Íslands fyrstu 50 árin. Farið verður á staði þar sem Háskóli Íslands starfaði og ráðgert var á fyrstu árum hans að ný háskólabygging myndi rísa. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Með fróðleik í fararnesti: Þingvallaþjóðgarður frá vatni um fáfarnar slóðir 1 skór NÝTT

8. júní, laugardagur

Fararstjórar: Ólafur S. Andrésson og Sigrún Helgadóttir.

Brottför: Kl. 10 frá Nautatanga/Vatnsviki á Þingvöllum.

Ólafur, sem er prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Sigrún, sem er fræðiritahöfundur, leiða gönguferð um Þingvallaþjóðgarð utan alfaraleiðar. Gengið er frá Vellankötlu um skógræktarreit og fjárhelli. Genginn verður hluti af gamalli þjóðleið, farið um gömul bæjarstæði og yfir gróin hraun. Um 4 klst. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Með fróðleik í fararnesti: Fæðuhringurinn í miðborg Reykjavíkur 1 skór NÝTT

21. september, laugardagur
Fararstjórar: Laufey Steingrímsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir og Sólveig Ólafsdóttir.

Brottför: Kl. 11 á horni Aðalstrætis og Túngötu.

Laufey, sem er prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, Guðrún, sem er matvælaverkfræðingur, og Sólveig, sem er sagnfræðingur, leiða gönguferð þar sem matur, saga og menning verða meginefnið og farið verður yfir sögu matar frá landnámi til okkar daga. Gengið verður um gamla grænmetisgarða, stakkstæði, veitingastaði og verslanir liðins tíma en göngunni lýkur við gömlu höfnina. 2 klst. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.