Með fróðleik í fararnesti - landafræði á hjólum um miðborgina

 

Með fróðleik í fararnesti - Landfræði á hjólum: Rýnt í borgarlandið

Hvenær hefst þessi viðburður: 
5. maí 2012 - 11:00 to 13:00
Staðsetning viðburðar: 

Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, leiðir hjólaferð um miðborgina og nágrenni. Staldrað verður við á nokkrum stöðum og fjallað um ýmis atriði borgarumhverfisins með augum landfræðinga. Hvaða öfl hafa öðru fremur mótað þróun Reykjavíkurborgar? Hvernig speglast hugmyndir almennra íbúa, skipulagshöfunda og arkitekta í ásýnd borgarinnar og hvaða breytingum hafa þær tekið í tímans rás? Hvaða afleiðingar hafa breytingar á íbúasamsetningu og atvinnulífi fyrir svipmót hverfa og gatna? Hvernig hefur svo á hinn bóginn hið byggða umhverfi, sem og óbyggð svæði, áhrif á mannlífið í borginni? Síðast en ekki síst, hvernig tengjast umferðarmálin þessu öllu? Þátttakendur mæti á hjóli. Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 11 og er gert ráð fyrir að ferðin taki um það bil tvær klukkustundir.

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.