Morgungöngum Ferðafélags Íslands og VÍS lauk á föstudag með göngu á Úlfarsfell. Morgungöngur hafa farið fram í átta ár og í þetta sinn var nýtt met slegið í fjölda en 650 manns tóku þátt í göngunum í ár. Lausleg könnun við rætur Úlfarsfell benti til að um 50 manns hefðu mætt í allar göngurnar fimm. Aldursforseti í göngunum var 78 ára og mætti hann hvern morgun og var jafnan með fremstu mönnum. Í morgun var nýjum áfanga náð þegar sex ára göngustúlka tók þátt í göngunni á Úlfarsfell.
Að vanda var lesið úr Skólaljóðum á hverjum morgni og stundum brustu göngumenn í söng. Í síðustu göngunni bauð Ferðafélag Íslands upp á morgunhressingu á Úlfarsfelli og gæddu göngumenn sér á volgu hagldabrauði og kókómjólk.
Fararstjórar í morgungöngum voru, eins og undanfarin ár, þau Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.