Metþátttaka í gönguferðum á Esjuna

Ferðafélag Íslands hefur nú safnað saman öllum gestabókum i Esjuhappdrætti FÍ og VÍSA í sumar.  Metþátttaka hefur verið í gönguferðum i Esjunnni í sumar en um 22.000 manns hafa skráð nöfn sín í gestabækur Ferðafélagsins á Þverfellshorni og við Steininn og samkvæmt tölum FÍ er það um 90% aukning frá fyrra ári þegar um 12.000 manns skráðu nafn sitt í gestabækurnar.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir þetta mjög ánægjulegar tölur en Ferðafélagið hafi undanfarin ár unnið markvisst að gönguferðum í Esjunni. ,, Við höfum meðal annars staðið fyrir verkefnum eins og Esjan alla daga og Esjan eftir vinnu,  þá höfum við boðið leikskólum í Reykjavík í gönguferð á Esjuna, verið með miðnætur og stjörnuskoðunarferðir og gengið Esjuna þvera og endilanga.   Þá hefur Esjudagurinn verið vel sóttur sl. ár með þátttöku 2 - 3.000 manns.

Ferðafélag Íslands stofnaði Ferðafélag barnanna í sumar og var það gert í leikskólaferð á Esjuna og er mjög ánægjulegt að gríðarleg fjölgun fjölskyldufólks hefur nú orðið í göngufeðrum á Esjuna.

,, Við erum að sjá mjög mikið af fjölskyldufólki í Esjunni þetta sumarið, mun fleiri en sl. sumur og má það að hluta til rekja til Ferðafélags barnanna, "

Ferðafélag Íslands hefur um langt árabil staðið að uppbyggingu á gönguleiðum í Esjunni, byggt göngubrýr, gefið út kort og sett upp skilti og merkingar í Esjuhlíðum.

Vísa Ísland, Valtior er styrktaraðili Ferðafélagsins í Esjunni og starfi FÍ almennt.