Mikil stemning á menningarkvöldi

Það var mikil stemning á menningarkvöldinu "Við klukknahljóm syndugra hjarta" sem haldið var s.l. laugardagskvöld í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi. 150 manns voru saman komin í kirkjunni á þessu fallega sumar kvöldi.

Gunnar Björn Gunnarsson afkomandi Gunnars Gunnarssonar flutti erindi um langafa sinn, þar sem hann fjallaði um söguna Svartfugl og ævi Gunnars. Leikararnir Jón Hjartarson, Þorsteinn Gunnarsson og Valgerður Dan fóru á kostum í vægast sagt dramatískum leiklestri á völdum köflum úr Svartfugli.  Þar á eftir flutti Áshildur Haraldsdóttir flautuverkið Lethe eftir Atla Heimi Sveinsson. Að lokum var séra Sveinn Valgeirsson með hugvekju.

Öllum gestum var boðið upp á kaffiveitingar á kaffihúsinu í Kirkjuhvammi. Veðrið lék við fólkið og náttúrufegurðin var ólýsanleg.