Gríðarlegur vöxtur hefur orðið á öllum sviðum hjá Ferðafélagi Íslands (FÍ) í sumar, að sögn Ólafs Arnar Haraldssonar, forseta FÍ. Það á jafnt við um þátttöku í ferðum, aðsókn að skálum og spurn eftir bæklingum og árbókum félagsins.
Þetta er algjört metár,“ sagði Ólafur Örn. „Það er greinileg bylgja í áhuga á gönguferðum og náttúruskoðun að ríða yfir. Hún kemur bæði frá útlendingum og Íslendingum. Við erum fullviss um að hún muni rísa hærra á næsta ári.“
Ólafur Örn sagði Ferðafélagið vel statt til að taka á móti þessari aukningu. Það hafi langa reynslu af rekstri og sjálfboðaliðastarfi. Félagið sé fullbúið að taka á móti miklu fleira fólki.
Ferðafélagið hefur bryddað upp á ýmsum nýjungum undanfarið. Þar má nefna Ferðafélag barnanna sem var stofnað í sumar. Einnig hófst unglingastarf undir merkjum Fjallaskóla Ferðafélagsins og ýmis verkefni því tengdu. Þá er félagið farið að bjóða upp á heilsutengdar ferðir. Stöðugt er unnið að því að bæta aðstöðuna á ferðamannaslóðum.
Það sem er brýnast nú er að bæta aðstöðu fyrir fólk í tjöldum sem gengur Laugaveginn,“ sagði Ólafur Örn. „Náttúran umhverfis Landmannalaugar og Landmannalaugasvæðið þolir vel það álag sem þar er. Þökk sé Umhverfisstofnun sem hefur lagt þar stíga með sínu starfsfólki og sjálfboðaliðum, aðallega erlendum. Þessir stígar eru í prýðilega góðu standi. Með auknum fjölda stíga getur svæðið tekið við miklu fleirum. Á einstaka stað þarf að loka hliðarstígum og lagfæra þar sem runnið hefur úr en svæðið þolir þetta algjörlega. Fólkið bókstaflega hverfur inn í þessa náttúru.“
Ólafur Örn segir að uppbygging á Laugaveginum og aðstöðu á öllum skálasvæðum félagsins þoli enga bið. ,, ,,Nauðsynlegt er að bæta tjaldaðstöðu og salernisaðstöðu á öllum svæðum og eins þarf að stækka skála á einstaka svæðum. Þetta eru aðkallandi verkefni sem þola enga bið og við þurfum sem þjóð að bjóða gestum okkar, bæði innlendum og erlendum upp á góða aðstöðu.
Aðsókn um Laugaveginn í sumar hefur aukist í um 10.000 göngumenn frá 6 - 7.000 frá fyrri árum.
Ólafur Örn segir að ein besta leiðin í náttúruvernd sé uppbygging, bæði á aðstöðu, göngustígum sem og að standa vel að merkingum og upplýsingagjöf. ,, Það er nóg pláss fyrir miklu fleiri gesti í náttúru landsins en við þurfum að bregðast við aukinum fjölda með meiri uppbyggingu."
Ferðafélag Íslands hefur á undanförnum árum eytt um 70 milljón krónum í uppbyggingu á aðstöðu á Laugaveginum. Allar tekjur félagsins fara til baka út í starrfið enda sé það í samræmi við markmið félagsins sem áhugamannafélags.