Mikill áhugi og eitthvað við allra hæfi

Um áramótin kynnti Ferðafélag Íslands nýtt verkefni í starfi sínu sem hlotið hefur nafnið ,,Eitt fjall á viku,“ en í verkefninu er markmiðið að ganga á eitt fjall á viku allt árið 2010 eða alls 52 fjöll.  Páll Guðmundsson leiðir verkefnið og er fararstóri í öllum fjallgöngunum. Verkefnið hefur hlotið frábærar viðtökur og alls hafa um 200 manns skráð sig og er nú búið að loka skráningu og þegar hafa þátttakendur gengið á fyrstu þrjú fjöllin í verkefninu.  

,,Það er mjög gaman hvað þátttakan er góð og hún segir mikið um þann mikla áhuga fólks á gönguferðum og fjallgöngum sem við höfum séð aukast stöðugt undanfarið,“ segir Páll.  ,,Hugmyndin að verkefninu er komin frá konu minni Auði Kjartansdóttur sem vildi hvetja mig til hreyfa mig meira og reglulega.   Vissulega vantar ekki áhugann hjá mér til að hreyfa mig og stunda gönguferðir og fjallgöngur en ég hafði svona verið að afsaka hreyfingarleysi mitt með mikilli vinnu og barnauppleldi, en auðvitað eru afsakanir aldrei til neins og ekki til góðs.“   

 

Dagskráin fyrir árið hefur verið sett upp og fyrstu sex fjallgöngurnar eru á sunnudögum, næstu sex á laugardögum, þá koma gönguferðir á miðvikudögum og fimmtdögum og á þremur vikum ársins er gengið á 10 fjöll og gefst þannig færi á að gefa 10 vikna sumarfrí.  Í sumarfríinu fá þátttakendur heimaverkefni þannig að þeir sem eru hvað duglegastir munu ganga á fleiri en 52 fjöll á árinu.  ,,Megintilgangur verkefnisins er að bera út boðskapinn og hvetja fólk til að fara út, hreyfa sig og ganga á fjöll í góðum félagsskap.  Miðað við viðbrögðin þá hefur það tekist og þó svo að ekki geti allir verið með í verkefinu og allri þeirri skuldbindingu sem því fylgir þá bendum við á dagsferðir FÍ, reglulegar ferðir og fjallgöngur, göngugleðina, Esjugöngur og fleiri verkefni í starfi félagsins sem öllum er velkomið að taka þátt í.“ 

            Páll segir að verkefnið hafi verið kynnt sérstaklega sem áramótaheit og allir  Ã¾átttkakendur hafi þurft að stíga á stokk og strengja þess heit að ganga á öll fjöllin 52. ,,Þetta er svona í anda þess þegar ungmennafélagshreyfingin fór eins og eldur um sinu um allt land í upphafi síðustu aldar og þá stigu menn á stokk og stengdu alls konar heit.  Ætli eitt besta heitð hafi ekki verið hjá einum ungmennafélaganum sem strengdi þess heit að verða 100 ára, ella myndi hann dauður verða.,“ segir Páll.  Fjöllin 52 eru flest í nágrenni Reykjavíkur en auk þess eru Hvannadalshnúkur, Hekla, Snæfellsjökull og Skjaldbreið á fjallalistanum.