Maður fer ekki erindislaus á fjöll" heyrðist oft sagt í byggðum Íslands í gamla daga. Umgengni við náttúruna var órjúfanlegur hluti af lífsviðurværi fólks þar sem fiskveiðar í sjó, ám og vötnum, landbúnaður og hvers kyns nýting á auðlindum landsins veitti fólki og dýrum helstu nauðsynjar til þess að draga fram lífið. Að fara út í náttúruna „einungis" fyrir upplifunina á sínar rætur að rekja til miðbiks síðustu aldar í kjölfar stofnunar Ferðafélags Íslands.
Útivera í dag snýst um umhverfisvæna og nærgætna notkun á náttúrunni þar sem góð lífsreynsla er aðal markmiðið.
Þýðing náttúrunnar fyrir leik
Frjáls leikur barna er frábrugðinn tómstundaiðju fullorðins fólks og hefðbundinni íþróttaiðkun að því leyti að hann er frjáls og hömlulaus. Slíkir leikir eru leið barnanna til þess að skipuleggja sig og setja reglur. Þannig virkjar hann ímyndunaraflið, forvitnina, sköpunargáfuna, hlutverkaleiki og félagsskap með öðrum. Leikir sem fela í sér líkamlega áreynslu eru áskorun á líkamann, styrkja hann og reyna á þolmörk hans. Leikir og líkamleg áreynsla gera börnin glöð og hraust - og láta þau trúa á sig sjálf!
Náttúran er hið fullkomna leiksvæði og örvar ímyndunaraflið. Runnar og kjarr geta verið spennandi húsakynni og plöntur og vatn, sandur, steinar og mold breytast í leiktæki og byggingarefni.
Þýðing náttúrunnar fyrir líkama og sál
Frá fæðingu öðlast börn aukna færni í að hreyfa sig. Útivera og gönguferðir í ójöfnu og grýttu landslagi eru áskorun og þjálfa barnið í að takast á við breytingar í umhverfi sínu. Rannsóknir á atferli barna í Noregi og Svíþjóð sýna fram á að börn sem fá tækifæri til þess að bjarga sér í óspilltri náttúrunni verða fyrir góðum áhrifum á geðheilsuna og stórauka samhæfni sína og einbeitingu.
Börnin upplifa margt gott í náttúrunni sem leggur grunn að tengingu einstaklingsins við náttúruna. Það skapar áhuga á útiveru og náttúruvernd sem endist um aldur og ævi.
Markmið og stefna Ferðafélags Íslands og Ferðafélags barnanna er m.a.:
Útivera:
Leiðin er takmarkið
Hjá Ferðafélagi Barnanna er leiðin mikilvægari en takmarkið sjálft. Fullorðnir keppast meira við að ná upp á topp eða á leiðarenda á sem skemmstum tíma. Börnin tala frekar um litlu ævintýrin sem gerðust á leiðinni heldur en hversu flott útsýnið var af toppnum. Aftur á móti er gott að ferðin hafi tilgang, t.d. að renna fyrir fisk, tína ber, leita að sveppum, kóngulóm og hunangsflugum, kveikja varðeld o.s.frv.
Ferðalög samkvæmt getu
Aldur og hæfileikar vega þungt þegar skipuleggja á ferðalag fyrir börn. Að sama skapi er mikilvægt að börnin fái að takast á við eitthvað nýtt. Þegar barn finnur framúrskarandi árangur hjá sjálfu sér er það gott veganesti inn í framtíðina.
Gátlisti við skipulag ferðalags
Þegar ferð er skipulögð bæði fyrir börn og fullorðna, er mikilvægast að taka mið af aldri og getu barnanna. Það ræður því hvert er farið, hversu langt, og hversu fjölbreytilegt ferðalagið er. Hversu vanir er ferðalangarnir?
Að hverju stefnum við í ferðinni? Hvað þurfum við? Hvernig gerum við þetta? Hvaða ramma höfum við (peninga, tíma, rúta, fjöldi o.s.frv.)?
Skipulagning í samráði við börnin
Það er mikilvægt að leyfa börnunum að taka þátt í undirbúningnum. Þannig eru þau með frá byrjun og finna að þau hafa hlutverki að gegna.
Spurningar sem við getum velt upp í undirbúningnum eru m.a.:
Hvert eigum við að fara? Hvar eigum við að gista? Hvaða leið eigum við að velja út frá kortinu?
Það er mikilvægt að allir taki þátt í undirbúningnum saman og skoði kort af leiðinni gaumgæfilega.
Hvað tökum við af útilegubúnaði? Hver tekur hvað?
Hverskonar mat og drykki þurfum við með?
Ferðareglur barnanna
Líkamleg geta barnanna og þroski í samhæfingu
Við skipulagningu og framkvæmd ferðarinnar er gott að kynnast hver er líkamleg geta einstaklingana innan hópsins. Þannig getum við séð hverjir hafa þörf fyrir auka áskoranir og hverjir þurfa að fara hægar. Einnig gerir þetta okkur kleift að meta hvaða hættur eru raunverulegar fyrir börn á ólíkum aldri með ólíka getu.
Líkamleg hreyfing barna er mikilvæg í dag þar sem þau eru í meiri kyrrsetu nú en á árum áður.
Við vitum að regluleg góð næring og hreyfing:
Hreyfing hefur fyrirbyggjandi áhrif og getur komið í veg fyrir heilsubrest vegna ofþyngdar (hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, ákveðinna tegunda krabbameins o.s.frv.)
Samhæfingargeta barna þroskast eftir nokkrum höfuðatriðum:
Til þess að börnin öðlist góða þjálfun og samhæfingu er mikilvægt að hreyfing og leikir þeirra séu með sem fjölbreyttustu sniði. Þar er náttúran hin ákjósanlegasti vettvangur með sínar fjölbreyttu upplifanir fyrir skynfærin og áskoranir fyrir líkamann á mismunandi stigum. Þar er fjöldinn allur af „klifurtækjum", s.s. steinum, trjám og klettum. Börn geta hlaupið um með skrækjum og hlátri án þess að trufla nokkurn mann. Margvíslegt undirlag, allt frá flötum stígum til grófra holóttra mela veita góða þjálfun með fjölbreyttum hreyfingum. Það getur verið nánast ómögulegt að fara upp á stóran stein frá einni hlið en það getur verið nánast eins og að ganga upp tröppur að fara upp á hann hinum megin. Trén eru ólík, frá hávöxnum öspum sem erfitt er að ná haldfestu í, til furu sem er auðvelt að klifra upp í frá jörðinni.
Í náttúrunni finna flest börn áskoranir við sitt hæfi. Þegar mörg börn er úti saman fylgjast þau með hvert öðru og fá nýjar hugmyndir að spennandi athæfi. Að byggja sér hús í kjarrinu er dæmi um verkefni sem krefst samhæfingar líkama og hugar. Börnin puða við að bera þunga lurka og setja saman af kostgæfni. Náttúran er svo miklu ríkara af mismunandi hlutum heldur en leikvöllur eða íþróttavöllur.