Um helgina fór 19 manna leiðangur á vegum Ferðafélags Íslands á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum og mun þetta vera í fyrsta sinn sem félagið efnir til ferðar á þennan kyngimagnaða tind. Leiðangursmenn gengu úr Skaftafelli inn í Kjós þar sem settar voru upp tjaldbúðir. Snemma á laugardag var síðan haldið upp með Meingili í Hnútudal og þaðan í skarð við Þumal. Þaðan liggur leiðin inn á jökul norðan við fjöll og austur með þeim að Miðfellstindi. Tindurinn er 1430 metra hár og af honum óviðjafnanlegt útsýni yfir Skaftafellsfjöll og fjallakrans Öræfajökuls allan.
Leiðangursstjóri var Guðmundur Freyr Jónsson en honum til fulltingis þeir Arnar Jónsson og Óðinn Árnason.
Veður var einstaklega gott og sólskin merlaði á jökulskalla Öræfajökuls þar sem Hrútfjallstindar og Hvannadalshnúkur blöstu við.
Ferðin upp gekk ágætlega þrátt fyrir bratt land og nokkurt harðfenni og á einum stað var sett upp lína til tryggingar fyrir hópinn þegar fara þurfti niður bratta fönn undir Þumli.
Á leiðinni niður af Miðfellstindinum aftur varð það óhapp að nokkrir göngumenn duttu. Línustjóri og göngumenn stöðvuðu skrið þeirra fljótt og örugglega en kona í hópnum stakk sig illa á ísöxi í fallinu. Eftir stutta rannsókn á vettvangi var ákveðið að kalla á hjálp og þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ lenti á jöklinum rétt norðan við Miðfellstind tveimur tímum síðar og flutti hina slösuðu undir læknishendur. Hún reyndist ekki alvarlega meidd og var útskrifuð af sjúkrahúsi um kvöldið.
Ferðafélag Íslands er stolt af fararstjórum sínum sem brugðust við af fumleysi og öryggi og stjórnuðu aðgerðum á vettvangi eins og best varð á kosið. Slys geta ávallt hent og ekki síst í krefjandi fjallgöngum og þá er mikilvægt að bregðast rétt við.
Hópurinn var síðan kominn í tjaldbúðir við Meingil um 21.00 um kvöldið. Daginn eftir var svo gengið í Skaftafell með viðkomu við Morsárlón í blíðskaparveðri.
Hér eru myndir. Og hér eru enn fleiri myndir.