Morgungöngur FÍ 2011 -Við fyrsta hanagal

89 manns gengu með Ferðafélagi Íslands á Vífilfellið í morgun, fimmtudag í fjórðu morgungöngu félagsins á árinu.Góð stemning var í hópnum enda úrvalsveður og vegna fjölda áskorana var tvílesið úr Skólaljóðunum. Myndir úr göngum undanfarinna daga eru hér og hér.
Hvern dag þessarar viku er gengið á fjall í nágrenni Reykjavíkur og lagt af stað úr Mörkinni 6. kl. 06.00. Hentugt er að safnast saman í Mörkinni 6 og sameinast í bíla eftir því sem kostur en þeir sem vilja geta komið að upphafsstað göngu hvern dag.
Með morgungöngum er hægt að sækja sér magnaða orku með snertingu við náttúruna í þeirri sérstöku stemmningu sem vormorgnar bjóða þeim sem fara snemma á fætur.
Þátttaka er ókeypis. Þátttakendur leggja til sjálfa sig og gleði sína af göngunni en Ferðafélag Íslands leggur til fararstjóra og býður þátttakendum upp á léttan morgunverð á síðasta fjalli vikunnar og þá er iðulega óvænt skemmtiatriði.
Fjöllin sem gengið verður á að þessu sinni eru: Helgafell við Hafnarfjörð, Mosfell, Helgafell við Mosfellsdal, Vífilsfell og Úlfarsfell. Fararstjórar verða: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Fjall föstudags sem er jafnframt síðasta morgunganga þessa vors er Úlfarsfellið. Í þeirri göngu verður léttur morgunverður í boði Ferðafélagsins og síðan mun Gunnsteinn Ólafsson kórstjóri leiða þátttakendur í sérstæðum og afar þjóðlegum sönggjörningi sem verður nánar skýrður út á vettvangi.

Aka skal þjóðveg eitt (Vesturlandsveg) en beygja út af til hægri við eyðibýlið Bauhaus. Síðan beygja straxtil hægri inn á Lambhagaveg og fljótlega af honum til vinstri inn á Gefjunnarbrunn. Ekið er eftir Gefjunnarbrunni í gegnum nokkur lítil hringtorg en þegar komið er að því síðasta skal beygja út úr því inn á Skyggnisbraut og aka eftir ehnni gegnum Urðartorg og þá mun blasa við bílastæði þar sem ganga hefst. Sjá kort hér.

Dagskrá vikunnar í heild:
Mánudagur 2. maí: Helgafell við Hafnarfjörð
Þriðjudagur 3. maí: Mosfell í Mosfellsdal
MIðvikudagur 4. maí: Helgafell í Mosfellssveit
Fimmtudagur 5. maí: Vífilsfell
Föstudagur 6 maí: Úlfarsfell

Leiðsögn að hverju fjalli fyrir sig verður birt hér síðunni daglega meðan morgungöngurnar standa.