Morgungöngur FÍ 4. - 8. maí

Morgungöngur FÍ 
4. - 8. maí, mánudagur - föstudags
Fararstjóri: Páll Ásgeir Ásgeirsson

Á fjöll við fyrsta hanagal. Fjallganga í nágrenni Reykjavíkur eldsnemma morguns, alla daga vikunnar. Brottför kl. 6 frá Mörkinni 6. Komið til baka um kl. 9. Farið á einkabílum.
Þátttaka ókeypis, allir velkomnir.

Við fyrsta hanagal

Mánudaginn 4. maí hefjast árlegar morgungöngur Ferðafélags Íslands. Að vanda vakna þátttakendur við fyrsta hanagal og safnast saman í Mörkinni við húsakynni FÍ klukkan sex stundvíslega á hverjum morgni. Þaðan aka menn saman og deila ef til vill bílum að upphafsstað göngu. Einnig er hægt að mæta við upphafsstað göngu hvern dag ef það hentar þátttakendum betur. Alla daga er lagt af stað úr Mörkinni klukkan sex og eigi mínútu síðar.

Stjórnandi morgunganga er Páll Ásgeir Ásgeirsson og líkt og á fyrra ári verður boðið upp á einhvern óvænta atburð í tengslum við göngurnar. Í fyrra komu prestur, karlakór og leikfimikennari við sögu og í ár lítur úr fyrir að rímnastemmur hljómi, karlakór syngi og hjartalæknir og þjóðþekktur rithöfundur láti ljós sitt skína. En eina leiðin til að komast að hinu sanna í þessu efni er að mæta og upplifa þá stórkostlegu stemmningu sem gefst í hinu bjarta morgunsári þegar borgin sefur en náttúran vaknar. Reynsla undanfarinna ára bendir til þess að aðsókn verði mjög góð en reynt er að sjá til þess að þátttakendur séu komnir aftur til vinnu milli klukkan níu og tíu.

Fjöllin sem gengið verður á eru þessi.

  • Mánudagur 4. maí: Helgafell við Hafnarfjörð. Brottför frá Mörkinni kl. 06.00 en ganga hefst við Kaldársel.

  • Þriðjudagur 5. maí: Keilir á Reykjanesi. Brottför frá Mörkinni kl. 06.00 ganga hefst á bílastæðinu við Keili. Beygt af Reykjanesbraut við undirgöng rétt sunnan við Kúagerði við skilti sem vísar á Keili.

  • Miðvikudagur 6. maí: Vífilsfell. Brottför frá Mörkinni kl. 06.00 og  beygt til hægri efst á Sandskeiði og stefnt að fjallinu. Ganga hefst í malarnámi við rætur fjallsins.

  • Fimmtudagur 7 maí: Helgafell í Mosfellssveit. Brottför frá Mörkinni kl. 06.00 en ganga hefst á bílastæði norðvestan við fjallið. Beygt af veginum upp Mosfellsdal rétt eftir að Vesturlandsvegi sleppir.

  • Föstudagur 8 maí: Úlfarsfell. Brottför frá Mörkinni kl. 06.00 en ganga hefst við bílastæði sunnan við fjallið. Beygt af Vesturlandsvegi við Bauhaus og akið gegnum hverfið uns komið er að bílaslóð sem liggur áleiðis upp fjallið.

Á fjöll við fyrsta hanagal

„Hann Tumi fer á fætur, við fyrsta hanagal,” segir í kvæði sem öll börn á Íslandi kunnu áður en sjónvarpið náði almennri útbreiðslu og er sungið við lag eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

Ferðafélag Íslands hefur í nokkur ár vaknað við fyrsta hanagal í eina viku á hverju vori og staðið fyrir svokölluðum morgungöngum. Þessar hressandi göngur hafa notið mikilla og sívaxandi vinsælda undanfarin ár og virðast margir nota þetta tækifæri til að hefja göngusumarið og gera átak fyrir sig persónulega. Í þessum ferðum er lögð áhersla á þá einstæðu samvist við náttúruna sem býðst á þessum tíma sólarhrings þegar fólkið er sofandi er fuglarnir eru að vakna og allt leiftrar og logar af lífi á íslenskum vormorgni. Göngurnar eru fyrst og fremst hugsaðar sem hressandi morgunstemmning í kátum félagsskap fremur en svínslega erfiðar fjallgöngur.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að fimm morgna í röð, fyrst á mánudegi safnast fólk saman í Mörkinni við hús Ferðafélags Íslands og heldur af stað þegar klukkan er nákvæmlega sex að morgni. Haldið er að einhverju fjalli í nágrenni Reykjavíkur og getur fólk sameinast í bíla í Mörkinni eða komið beint að upphafsstað göngu. Síðastliðið ár var gengið á Helgafell við Hafnarfjörð, Keili, Vífilfell, Úlfarsfell og Helgafell í Mosfellssveit. Ýmislegt var gert til að hressa andann í þessum ferðum. Prestur las hugvekju, þjóðfrægur leikfimikennari stýrði morgunleikfimi að fornum sið og síðast en ekki síst mætti Karlakórinn Fóstbræður morguninn sem hvað mest rigndi og söng fyrir göngumenn. Hærra minn Guð til þín á Úlfarsfelli í austan strekkingi og haugarigningu klukkan sjö að morgni gleymist engum sem á hlýddi.

Vorið 2009 eru morgungöngurnar á dagskrá dagana 4-8 maí að báðum dögum meðtöldum. Hvaða fjöll verða fyrir valinu verður nánar auglýst síðar en líklega verður listinn svipaður og síðastliðið vor. Það eru hjónin Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir sem stjórna morgungöngunum í ár. Ferðafélag Íslands reyndi án árangurs að fá upplýsingar um það hvað yrði helst til skemmtunar í göngunum en fékk aðeins þau svör að óvæntar uppákomur til þess að lyfta andanum yrðu á dagskrá. FÍ telur sig þó hafa góðar heimildir fyrir því að þjóðfræg skáld komi við sögu í morgungöngum þessa árs.

Þátttakendur þurfa nánast ekkert nema viljann til þess að vakna með hröfnum á morgnana, og auðvitað góðan fatnað og gönguskó en ekkert gjald er tekið af morgungörpum. Gott er að hafa göngustafi og luma á vatnsbrúsa eða hitabrúsa í bakpokanum. Svo safnast menn saman í Mörkinni og halda þaðan á vit fjallanna stundvíslega klukkan sex.

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Ferðafélags Íslands: www.fi.is

eða á skrifstofu félagsins í síma 568-2533