Morgungöngur FÍ alla næstu viku

„Hann Tumi fer á fætur, við fyrsta hanagal,” segir í kvæði sem öll börn á Íslandi kunnu áður en sjónvarpið náði almennri útbreiðslu og er sungið við lag eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

Ferðafélag Íslands hefur í nokkur ár vaknað við fyrsta hanagal í eina viku á hverju vori og staðið fyrir svokölluðum morgungöngum sem standa yfir alla næstu viku 3-7 maí
Þessar hressandi göngur hafa notið mikilla og sívaxandi vinsælda undanfarin ár og virðast margir nota þetta tækifæri til að hefja göngusumarið og gera átak fyrir sig persónulega. Í þessum ferðum er lögð áhersla á þá einstæðu samvist við náttúruna sem býðst á þessum tíma sólarhrings þegar fólkið er sofandi er fuglarnir eru að vakna og allt leiftrar og logar af lífi á íslenskum vormorgni. Göngurnar eru fyrst og fremst hugsaðar sem hressandi morgunstemmning í kátum félagsskap fremur en svínslega erfiðar fjallgöngur.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að fimm morgna í röð, fyrst á mánudegi safnast fólk saman í Mörkinni við hús Ferðafélags Íslands og heldur af stað þegar klukkan er nákvæmlega sex að morgni. Haldið er að einhverju fjalli í nágrenni Reykjavíkur og getur fólk sameinast í bíla í Mörkinni eða komið beint að upphafsstað göngu. Â 
Vorið 2010 eru morgungöngurnar á dagskrá dagana 3-7  maí að báðum dögum meðtöldum og  verður gengið á eftirtalin fjöll:
Mánudag 3. maí: Helgafell við Hafnarfjörð. Brottför úr Mörkinni 6 kl. 06.00 en gangan hefst við Kaldársel.
Þriðjudag 4. maí:  Reykjaborg í Mosfellsveit. Brottför úr Mörkinni 6. kl. 06 en gangan hefst við gömlu réttina við Hafravatn. Hentugast að aka Úlfarsfellsveg og beygja skammt frá Skyggni  og halda meðfram vatninu.
Miðvikudag 5. maí: Mosfell í Mosfellsdal. Brottför úr Mörkinni 6. kl. 06 en gangan hefst við kirkjuna á Mosfelli.
Fimmtudag 6, maí: Vífilsfell við Sandskeið. Brottför úr Mörkinni 6. kl. 06 en gangan hefst í malarnámi við rætur fjallsins.
Föstudag 7. maí: Úlfarsfell. Brottför úr Mörkinni 6. kl. 06 en upphafsstaður göngu er við bílastæði sunnan við fellið þar sem vegur liggur upp á það.

Það eru hjónin Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir sem stjórna morgungöngunum eins og tvö undanfarin ár. Ákveðið hefur verið að þema morgungangnanna í ár verði ljóðalestur og verður lesið úr Skólaljóðunum eða öðrum ljóðbókmenntum á hverjum fjallstindi.
Þátttakendur þurfa nánast ekkert nema viljann til þess að vakna með hröfnum á morgnana, og auðvitað góðan fatnað og gönguskó en ekkert gjald er tekið af morgungörpum. Gott er að hafa göngustafi og luma á vatnsbrúsa eða hitabrúsa í bakpokanum. Svo safnast menn saman í Mörkinni og halda þaðan á vit fjallanna stundvíslega klukkan sex.

Morgungöngur

Þátttakendur í morgungöngu FÍ 2009 sitja á Úlfarsfelli og hlýða á fagran söng.