Sumarið er komið og morgungöngur FÍ eru handan við hornið. Morgungöngurnar standa alla næstu viku, dagana 8.-12. maí og hefjast stundvíslega kl. 6.
Í mörg ár hefur Ferðafélagið boðið fólki að taka þátt í hressandi fjallgönguviku í maí. Gengið er af stað kl. 6 alla morgna vikunnar og göngu lýkur 2-3 klst. síðar.
Fátt er betra en að byrja góðan dag með fjallgöngu og fylla lungun af fjallalofti fyrir verkefni dagsins. Boðið er upp á ýmsan fróðleik og skemmtun í hverri göngu, auk morgunleikfimi. Í tilefni af 90 ára afmæli FÍ verður skáld með í hverri morgungöngu til að efla andann og blása mönnum þrek í brjóst.
Göngurnar eru ókeypis og allir velkomnir. Hver ganga tekur 2-3 klst. Gott er að vera í skjólgóðum fatnaði og gönguskóm og taka með sér göngustafi, nestisbita og drykk.
Fararstjórar eru Auður Kjartansdóttir og Páll Guðmundsson.
Mánudagur: Helgafell ofan Hafnafjarðar. Gangan hefst við Kaldársel kl. 6.
Þriðjudagur: Reykjaborg. Gangan hefst við bílastæði norðaustan við Hafravatn kl. 6.
Miðvikudagur: Haukadalsfjöll. Gangan hefst við neðan við Hrafnhóla kl. 6.
Fimmtudagur: Vífilsfell við Sandskeið. Gangan hefst við malarnámur við rætur fjallsins kl. 6.
Föstudagur: Úlfarsfell. Gangan hefst við bílastæði skógræktar við Vesturlandsveg kl. 6. Skrifað undir samstarfssamning við heilsueflandi samfélag Mosfellsbæ.