18.01.2010
Næsta myndakvöld Ferðafélags Íslands verður tileinkað vetrarferðum á skíðum og er haldið undir yfirskriftinni: Í heimi frosts og fanna
Myndakvöldið fer fram miðvikudagskvöldið 20 jan. n.k. og verður að vanda haldið í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00. Í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi samkvæmt hefð.
Aðgangseyrir er á sannkölluðu kreppuverði eða aðeins 600 krónur á mann.
Fyrrihluti myndasýningarinnar er í umsjá Einars Ragnars Sigurðssonar. Einar er reyndur fjallamaður sem hefur stundað skíðaferðir um hálendi Íslands í áratugi. Hann er verðlaunaður ljósmyndari en myndir hans hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum og íslenskum samkeppnum.
Einar sýnir myndir úr gönguskíðaferðum yfir Vatnajökul, í Landmannalaugar og um Fjallabak, Torfajökul og Laugaveginn.
Seinnihluti myndasýningarinnar er í umsjá Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem sýnir myndir úr gönguskíðaferðum í Öskju og um Síðuaafrétt veturna 2008 og 2009. Páll Ásgeir hefur ferðast um íslensk fjöll í áratugi, skrifað leiðsögubækur og er einn af fararstjórum FÍ auk þess að sitja í stjórn félagsins.
Áður en seinni hluti sýningarinnar hefst eftir kaffihlé munu Einar Ragnar og Páll Ásgeir svara fyrirspurnum varðandi búnað og undirbúning skíðaleiðangra að vetrarlagi.
Þótt enn sé ekki kominn mikill snjór er enn hávetur og skíðamenn sem óðast að búa sig undir metnaðarfulla leiðangra þegar daginn lengir. Þeir láta sig dreyma um nýjar slóðir og myndakvöld FÍ geta verið kjörinn vettvangur til að hitta aðra fjallamenn og bera saman bækur sínar.