Töfrar náttúru Grænlands og berghlaup á Morsárjökli
Myndakvöld Ferðafélags Íslands verður haldið í Mörkinni 6 á miðvikudagskveld kl. 20.00 þann 23. mars. Þar fer flest samkvæmt venju með fróðleik, glæsilegum ljósmyndum og kaffiveitingum í hléi.
Myndasýningin er í umsjá Jón Viðars Sigurðssonar, jarðfræðings og ritstjóra árbókar Ferðafélagsins. Jón Viðar hefur ferðast vítt og breytt um byggðir og óbyggðir Grænlands s.l. 30 ár við leik og störf. Hann þekkir því vel til landsins og hefur heimsótt staði sem fáum er kunnugt um. Jón hefur í tvígang stýrt gönguferðum á Grænlandi á vegum FÍ.
Sagt verður frá Grænlandi vítt og breitt í máli og myndum. Þar á meðal áhugaverðum svæðum til gönguferða, söguslóðum og stórbrotinni náttúru. Siglingar til Grænlands koma einnig við sögu en Jón hefur í fjölmörg skipti siglt til Grænlands sem fyrirlesari og leiðsögumaður með skemmtiferða- og leiðangursskipum.
Á myndasýningunni verður einnig fjallað um mikla skriðu eða berghlaup sem féll á Morsárjökul árið 2007. Jón fór á vettvang í maí 2007 til að rannsaka og mæla skriðuhlaupið og hefur siðan fylgst reglulega með ferðalagi og þróun skriðunnar sem hvílir á jöklinum. Skriðan er áhugavert fyrirbæri sem skemmtilegt er að skoða enda er umhverfi Morsárjökuls stórfenglegt.