Tveir stórviðburðir munu eiga sér stað í íslensku fjallgöngusamfélagi í marsmánuði. Ísalp (Íslenski alpaklúbburinn) heldur upp á þrjátíu ára starfsafmæli og af því tilefni mun einn fremsti fjallaklifrari heimsins, Steve House, heimsækja Ísland og halda fyrirlestur og myndasýningu um ævintýri sín.
Steve hlaut Gullnu Ísexina (Piolet dOr) árið 2005 ásamt klifurfélaga sínum Vince Anderson. Gullna Ísexin er viðurkenning sem franski alpaklúbburinn og tímaritið Montagnes veitir á hverju ári þeim sem þykja hafa skarað framúr á svið fjallamennsku og þykja eftirsóttustu verðlaun sem veitt eru á þessu sviði. Verðlaunin hlutu þeir fyrir að klifra hið hrikalega Rupal fés á Nanga Parbat (8.125m) í Pakistan án allrar utanaðkomandi aðstoðar. Steve er af mögum talinn áhrifamesti og árangursríkasti alpamaður af sinni kynslóð. Áherslur hans í fjallamennsku einkennast af virðingu fyrir náttúrunni auk þess sem hann leggur áherslu á að ferðast hratt með lítinn farangur og skilja engan búnað eftir á fjallinu. Steve kemur til Íslands föstudaginn 9. mars og dvelur í rúma viku. Á þeim tíma stefnir hann á að kynnast bæði náttúru og fólki landsins vel.
Mánudaginn 12. mars heldur Steve fyrirlestur og myndasýningu um Nanga Parbat leiðangurinn og fleiri afrek. Sýningin hefst klukkan 20:00 í sal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6.