Myndir úr nýrri árbók

Á næsta myndakvöldi Ferðafélags Íslands 28. apríl n.k. mun Ólafur Örn Haraldsson forseti félagsins sýna ljósmyndir úr væntanlegri árbók FÍ 2010.
Bókin fjallar um Torfajökulssvæðið og Fjallabak og er óhætt að segja að þetta heillandi svæði verði sýnt í nýju ljósi í þessari árbók sem Ólafur Örn hefur skrifað og er væntanleg í hendur félagsmanna í maímánuði.
Árbækur Ferðafélags Íslands eru ótvírætt ein merkasta ritröð um Ísland og náttúru þess sem til er en árbækurnar hafa komið út árlega frá 1929.
Vandaðar ljósmyndir eru aðalsmerki þessarar bókar eins og ávallt og flestar þeirra hefur Daníel Bergmann ljósmyndari tekið en hann hefur lagt gjörva hönd að verki við árbækur síðustu ára. Í ljósmyndasýningunni á miðvikudaginn mun einnig bregða fyrir fjölmörgum eldri myndum sem sýna uppbyggingarstarf og ferðir á svæðinu umhverfis Landmannalaugar í áratugi.
Hér gefst því tækifæri til að skyggnast í væntanlegan fróðleiksmola en ekki síður að líta til baka og minnast við gamla daga.
Samkoman hefst stundvíslega kl. 20.00 í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6. Aðgangseyrir er kr. 600 og kaffiveitingar í hléi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Jökulgil

Þessi mynd var tekin á brúnum Jökulgils við sólarupprás í byrjun september. Það er Hatturinn sem stingur klettum sínum upp úr þokunni sem hörfar undan geislum sólar.