Myndlist í náttúru / náttúra í myndlist

Sýningin MINJAR myndlist í náttúru // náttúra í myndlist

Náttúrufræðistofa Kópavogs

9. maí kl. 15.30

 

Á sýningunni MINJAR, náttúra í myndlist og myndlist í náttúru, gefur að líta verk sem flest eru unnin sérstaklega fyrir húsakynni Náttúrufræðistofu Kópavogs. Tengsl náttúru og myndlistar eru hér í brennipunkti í breiðum skilningi, en einnig flettast inn vangaveltur um söfn almennt og hvaða hlutverki þau hafa að gegna. Hvað leitast þau við að varðveita og passa uppá að komandi kynslóðir fái að sjá og hvaða sögu inniheldur það sem gestum er sýnt? Eftir hvaða kerfi eru munirnir flokkaðir og á hvaða hátt eru þeir settir fram til sýnis?

 

Náttúran hefur lengi verið listamönnum hugleikin. Sýn og úrvinnsla hafa þróast og breyst frá því að fyrstu málararnir sátu úti með trönurnar sínar en sjá má á myndlist samtímans að enn skoðum við og rýnum í náttúruna og vinnum út frá henni ný og spennandi myndlistarverk. Á þessari sýningu eiga myndlistarverkin samtal við þá gripi sem fyrir eru. Saman tvinnast þessar tvær sýningar, myndlistarsýningin og náttúrufræðisýningin, og úr verður tímabundin heildarsýning sem þannig skrifar áfram tengslasögu náttúru og myndlistar.

 

Þeir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Anna Líndal, Bjarki Bragason, Eygló Harðardóttir, Harpa Árnadóttir, Harpa Dögg Kjartansdóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Helga Arnalds, Hildigunnur Birgisdóttir, Hugsteypan, Hildur Bjarnadóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Jeannette Castioni, Magnea Ásmundsdóttir, Pétur Thomsen, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Sigurrós Svava Ólafsdóttir og Unnar Örn Jónsson Auðarson.

 

Sýningin opnar í Náttúrufræðistofu Kópavogs laugardaginnn 9. maí kl. 15.30 og stendur til 31. ágúst.

Einar Tómasson, varaformaður lista- og menningarráðs Kópavogs, opnar sýninguna. Aðgangur er ókeypis.

 

Sýningarstjórar eru Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir