Mýrar brúaðar með nýrri aðferð

Gönguleiðir á Íslandi liggja víða yfir mýrlendi þar sem oft myndast djúpar og ljótar slóðir og fólk þarf að vaða drullu langt upp á ökla. Nú hefur Ferðafélag Akureyrar, FFA, fundið nýja aðferð til að leggja göngubrýr yfir mýrar og votlendi.

Að sögn Ingvars Teitssonar, formanns Gönguleiðanefndar FFA, felst þessi nýja aðferð helst í því að forvinna allt efni og leggja brýrnar lágt yfir jörðu. ,,Við fundum aðferðina á netinu en hugmyndin kemur úr leiðbeiningabók um stígagerð í votlendi sem gefin er út af bandarísku landbúnaðarstofnuninni.

Í fyrrasumar varð aðferðin prufuð þegar lögð var ríflega 10 metra löng göngubrú á mýrarsund á Lambagötunni fram Glerárdal, þ.e. á leiðinni upp í Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar. Að sögn Ingvars stóðst brúin prófið með prýði, kom ósködduð undan vetri í vor og hafði ekki haggast.


Efnið lagt á sinn stað og plankar skrúfaðir ofan í harðviðarundirstöðu

,,Þar sem plankarnir liggja svo lágt, þá virðist ekki myndast mikið álag á þá þegar snjórinn leggst yfir með öllum sínum þunga," segir Ingvar. ,,Það skiptir líka miklu hvað þessi aðferð er fljótleg og einföld en jafnframt ódýr. Það er grundvallaratriði þegar verið er að gera brýr á fjöllum og í óbyggðum. Búið var að forvinna efnið í þessa prufubrú í fyrra og hún var svo lögð á aðeins 70 mínútum. Svo einfalt er þetta," segir Ingvar.


Kambstál rekið niður í gegnum undirstöðurnar og borinn kældur þegar skrúfugötin voru gerð

Í kjölfarið hófst nú í sumar vinna við að setja upp fleiri slíkar býr. Fyrir nokkrum dögum var lögð 40 metra löng brú á Súlugötunni, svokölluðu, þ.e. á leiðinni upp á bæjarfjall Akureyrar, Súlur. Í sömu ferð var jafnframt sett niður 3,2 m löng bitabrú á læk á gönguleiðinni.

Ingvar segir að allt verkið, þ.e. að ganga að brúarstæðunum, setja þessar tvær brýr upp og ganga heim aftur, hafi aðeins tekið samtals um 5 klst. Meðfylgjandi myndir eru úr þessari vinnuferð og sýna uppsetningu brúanna tveggja, aðallega mýrarbrúarinnar.


40 metra löng mýrarbrú á Súlugötunni frágengin og fín

Fyrirhugað er að setja upp fleiri svona mýrarbrýr á þessum tveimur gönguleiðum, Súlugötunni og Lambagötunni. Ferðafélag Akureyrar er búið að tryggja sér styrk fyrir efniskostnaði næstu tvö árin en öll vinnan við brúargerðina er unnin í sjálfboðastarfi og mun efnið verða flutt á snjósleðum á veturnar.

Ingvar segir að aðferðin geti gagnast víða á Íslandi og býður áhugasömum um hönnun mýrarbrúanna að hafa samband við sig í gegnum Ferðafélag Akureyrar.


Ný bitabrú lögð yfir læk á Súlugötunni