Myrkfælinn draugur og skálavörður með hjartslátt
Halldór Hafdal Halldórssson hefur verið skálavörður FÍ í Landmannalaugum í vetur og er á leið í Laugar nú í lok vikunnar í næsta úthald. Dóri hefur verið starfsmaður FÍ í 15 ár og lengst af verið skálavörður í Hvanngili og eins nú síðustu 8 ár sem vitavörður í Hornbjargsviti og allt að því öðlast heimsfrægð fyrir fiskibollurnar sínar. Eftir að Hornbjargsvita lokar í ágúst hefur Halldór verið í hlutverki þjónustustjóra skála FÍ að Fjallabaki fram á haust. Dóri hefur lent í ýmsu bæði að Fjallabaki og á Hornbjargi.
„Hornbjargsviti og svæðið um kring er einstakt og stórbrotið. Nándin við náttúruöflin er óvíða eins mikil og síðast en ekki síst er kyrrðin ómetanleg. Ennþá eru ekki of margir á ferðinni þarna norðurfrá,” segir Halldór Hafdal Halldórsson , skálavörður á Hornbjargsvita og þjónustustjóri Ferðafélags Íslands um það sem heillar hann mest við Hornbjargsvita og svæðið í kring. Halldór hefur þjónað ferðamönnum frá vitanum mörg undanfarin sumur og nýtur aðdáunar og virðingar fyrir starf sitt. Fiskibollurnar hans eru víðfrægar fyrir einstök bragðgæði.
Spurt er hvað hafi orðið til þess að Halldór hóf störf sem skálavörður Ferðafélags Íslands.
„Þetta var ævintýraþrá. Dagmar, konan mín, sá auglýsingu í blaði og við ákváðum að sækja um stöðu í skálanum í Hvanngili. Við fengum starfið og vorum fjögur sumur með tvö börn og tvo stóra hunda í 12 fermetra kofa”.
Það er ekki alltaf sól og blíða á Hornbjargi. Stundum liggur þokan eins og mara yfir vitanum dögum saman. Hvað gera staðarhaldarar þá?
„Þegar það er þoka og suddi er ekkert dásamlegra en að sitja við heitan ofninn og lesa góða bók, það er að segja ef það eru ekki einhver innistörf sem bíða eftir mér. Engum þarf þó að leiðast þótt það rigni eða sé þoka. Maður finnur sér alltaf eitthvað að gera, en ugglaust hefur myrkrið og einveran á veturna haft áhrif á fólk hér áður og fyrr”.
Lendingin við Hornbjargsvita er nokkuð háskaleg að sjá. Strandferðabáturinn kemur með fólk á leguna fyrir utan en síðan þarf að ferja mannskapinn í land á gúmmbáti. Halldór hefur þó aldrei lent í áföllum þar eða háska.
„Lendingin er mjög þægileg í góðu veðri og réttum aðstæðum. En eins og allt annað sem maður tekur sér fyrir hendur er það einfalt þegar maður kann það. Oft er slæmt í sjóinn og þá getur pusað á bátinn ég hef bara einu sinni lent í að bleyta fólk á leiðinni í land en aldrei lent í óhappi, Við skipstjórinn á bátnum vegum þetta og metum í sameiningu. Ef við erum ekki alveg öruggir þá er hætt við lendingu og aldrei lagt í tvísýnu með fólk. Það þarf lítið út af að bera á gúmmítuðru til að það verði slys”.
Halldór er gjarnan einn í Landmannalaugum sem skálavörður að vetrinum. Hann er spurður hvernig hann vinni gegn einmanaleikanum. Verður hann aldrei smeykur í svartamyrkri öræfanna, aleinn?
„Það er aðeins eitt orð um að vera í Landmannalaugum, einn að vetri til. Dásemd. Þar þarf maður þó að vera skipulagður til að lenda ekki í doða og þunglyndi þegar maður hefur verið lengi einn í myrkrinu. Ef engir ferðamenn koma í viku eða meir, þá er bara að passa uppá regluna; vakna á morgnanna, borða,lesa smávegis, klæða sig upp og taka göngutúr um svæðið og sjá hvort það sé ekki allt í lagi. Það er líka orðið síma- og netsamband um allt hálendið þannig að það er lítið mál að fylgjast með fréttum og tala við fjölskyldu og vini”.
Margt býr í myrkrinu. Verður Halldór einhverntímann var við’ eitthvað sem ekki er þessa heims? Hann segir frá atviki sem varð til þess að hann fékk hjartslátt.
„Já ég trúi á drauga og verð oft var við eitthvað sem ekki er af þessum heimi. Það er nú ýmislegt í gangi í Laugunum. Þegar dimma tekur birtist gjarnan ungur maður sem við köllum myrkfælna drauginn. Hann heldur til í skálanum og kveikir gjarnan ljósin undir miðnætti. Mér varð nú ekki um sel eitt kvöldið þegar ég stóð við gluggann í skálavarðahúsinu og var að tannbursta mig. Þá sá ég hvar kviknuðu öll ljós í skálanum. Veður var vont og ég einn á staðnum. Það var með hálfum huga að ég fór út í skála að athuga hver væri kominn. En þar var enginn og ekkert að sjá. Þetta var hálf óþægilegt en ekkert annað að gera en labba aftur heim. Ég hélt að rafmagnið væri að stríða mér fór yfir það allt daginn eftir en allt reyndist vera í lagi. Ég skráði söguna í dagbók skálavarðanna. Um vorið þá hitti ég skálavörðinn sem ég hafði verið að leysa af og hún fór að spyrja mig út í ljósaganginn því þetta gerðist víst oft hjá henni.
Í annað skipti var Ketill sonur minn með mér þarna uppfrá um áramót og við fórum í laugina eftir kvöldmatinn á gamlárskvöld engir gestir búnir að vera í þrjá daga og mikið snjóað. Þar sem við sátum í pottinum í svarta myrkri og með höfuðljós á kollinum sá ég glampa í eitthvað hinu megin á bakkanum. Viti menn tveir ískaldir bjórar á kantinum sem álfarnir voru að færa okkur í nýársgjöf”.
Líf skálavarðarins er fjölbreytilegt og ýmislegt sem gerist á fjöllum. Hvert er sérkennilegasta atvikið sem Hallfdór hefur lent í sem skálavörður?
„Það er svo margt sem skálavörður lendir í man ekki eftir neinu sérstöku í augnablikinu nema helst konunni sem bankaði uppá hjá mér í Hvanngili og bað mig að kalla á leigubíl”.