Sjötta árið í röð standa Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands saman að fræðandi göngum á og í nágrenni höfuðborgarinnar undir heitinu „Með fróðleik í fararnesti“. Alls verður boðið upp á níu ókeypis ferðir í ár fyrir alla fjölskylduna og verður sú fyrsta 29. janúar.
Háskólinn og Ferðafélagið hófu samstarf sitt á aldarafmæli skólans árið 2011 en markmið þess var að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Í ferðunum leiða fræðimenn og nemendur við Háskóla Íslands annars vegar og fararstjórar á vegum Ferðafélagsins hins vegar saman hesta sína og miðla af þekkingu sinni. Ferðirnar eru jafnan á bilinu 2-4 klukkustundir.
Áætla má að þúsundir manna hafi gengið með Háskóla Íslands og Ferðafélagi Íslands í fjölbreyttum ferðum á þeim tíma sem samstarfið hefur staðið og hafa sumar ferðanna öðlast fastan sess í samstarfinu. Þar má nefna ferð á slóðir kræklingsins í Hvalfirði og fuglaskoðunarferð í Grafarvog í aprílmánuði, pödduskoðunarferð í Elliðaárdalinn í júní og sveppaferð í Heiðmörk í ágúst. Allar þessar ferðir verða á sínum stað í ár.
Jafnframt verður í annað sinn boðið upp á stjörnu- og norðurljósaskoðun undir leiðsögn Sævars Helga Bragasonar, verkefnisstjóra vísindamiðlunar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, í fyrstu ferð ársins nú í janúar en hana sótti á fjórða hundrað manns í fyrra. Þá verður einnig eldfjalla- og gjótukönnun í Búrfelllsgjá í leiðsögn Snæbjörns Guðmundssonar, doktorsnema í jarðfræði, aftur á dagskrá í maí.
Í ár bjóða Háskólinn og Ferðafélagið einnig upp á þrjár nýjar ferðir. Sú fyrsta er í febrúar en þá verður haldið í Bláfjöll og fræðst um snjó, ís og jökla undir leiðsögn Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, dósents í jöklafræði. Jónsmessunni verður svo fagnað í júni með álfagöngu í Mosfellsdal undir leiðsögn Júlíönu Þóru Magnúsdóttur, doktorsnema í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og í síðustu ferð ársins verður farið í fjöruna við Gróttu með Hrefnu Sigurjónsdóttur prófessor og Kristínu Norðdahl lektor, sem báðar starfa við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Göngurnar eru farnar í samstarfi við Ferðafélag barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands, og þær eru því tilvalin leið fyrir fjölskylduna til þess að njóta útiveru saman. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.
Nánari upplýsingar um göngurnar:
Stjörnu- og norðurljósaskoðun í Heiðmörk - 29. janúar kl. 20
Snjór og ís í Bláfjöllum – Föstudaginn 19. febrúar kl. 16
Á slóðum kræklingsins í Hvalfirði – Laugardaginn 9. apríl kl. 11
Fuglarnir fljúga heim: Fuglaskoðun í Grafarvogi – Laugardaginn 23. apríl kl. 11
Eldfjalla- og gjótukönnun í Búrfellsgjá – Þriðjudaginn 3. maí kl. 17
Pöddulíf í Elliðaárdal – Fimmtudaginn 7. júní kl. 17
Álfaganga um Jónsmessu í Mosfellsdal – Þriðjudaginn 21. júní kl. 16