Nú er bara að stilla vekjaraklukkuna: Morgungöngur 9.-13. maí

Morgungöngur Ferðafélags Íslands og VÍS standa yfir 9.-13. maí en morgungöngurnar hafa verið árlega á dagskrá síðastliðin 12 ár. Gengið er alla daga vikunnar og hefjast göngurnar kl. 6 hvern morgun.

Að þessu sinni verður brugðið út af venjunni og í stað þess að ganga á fjöll verður nú gengið í fjörunni frá Leirvogi í Mosfellssveit til Kópavogs. Gengið er klukkan sex alla morgna og er þátttaka ókeypis og allir velkomnir.

Páll Guðmundsson og Auður Kjartansdóttir eru fararstjórar í morgungöngunum. ,,Þegar við byrjuðum á þessu verkefni fyrir 12 árum þá mættu 5 manns í fystu morgungönguna en þeim fjölgaði jafnt og þétt og nú eru um 500 manns sem taka þátt í þessum gönguferðum sem eru 5 daga í röð eina viku í maí, segir Páll. ,,Við förum að þessu sinni niður í fjöru og upplifum kyrrðina og fegurðina í fjöruborðinu við undirspil sjávarins. Við munum auk þess bregða á leik og fjaran er tilvalinn leikvöllur fyrir morgunhressa göngugarpa.“

Hver ganga tekur um 2 klst og er gengið í fjörunni frá upphafsstað en til baka eftir göngustígum ofan við fjöruna og aftur að bílunum. Páll segir að morgungöngurnar séu góð upphitun fyrir gönguferðir sumarsins og einnig góð byrjun á hverjum degi að fylla lungun af fersku sjávarlofti.

Áætlað er að hver ganga taki tvo tíma og ljúki klukkan 8 á bílastæði við upphafsstað göngu. Byrjað er á léttru upphitun og morgunleikfimi svo er gengið í fjörunni, á klettum eða í steinum í upphafi en á göngustígun til baka að bílum.

Gott er að vera í göngu- eða íþróttafatnaði og léttum gönguskóm eða íþróttaskóm. Svo er um að gera að taka sundfötin með og skella sér í sund að lokinni göngu.

Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.


Dagskráin vikunnar er sem hér segir:

Mánudagur 9. maí kl. 6:
Harðaból, hesthúsasvæðinu í Mosfellsbæ, Varmárbakkavegur, ekið niður Skólabraut, framhjá Varmárskóla og að hesthúsasvæðinu. Þar hefst gangan og verður gengið niður í fjöru í Leiruvoginum. Göngu lýkur við upphafsstað þar sem bílum var lagt.

Þriðjudagur 10. maí kl. 6:
Eiði, þar sem ekið er út á Geldinganes. Ekið yfir Gullinbrú eftir Strandaveginum og eftir að komið er fram hjá Gufunesi er beygt til vinstri og bílum lagt þar sem heitir Eiði, en þar heldur vegurinn áfram út á Geldinganes. Gengið í fjörunni, út í Gufunes og aftur að uppafstað göngu við bílastæði.

Miðvikudagur 11. maí kl. 6:
Höfnin við Klettagarða hjá Viðeyjarferju, bílum lagt á bílastæði við höfnina þar sem Viðeyjarferjan siglir í Viðey, gengið út á Laugarnes, að Hörpu og til baka.

Fimmtudagur 12. maí kl. 6:
Grótta, lagt á bílastæðinu við Gróttu og gengið þar í fjörunni og síðan umhverfis golfvöll Seltjarnarness, út á Búðagranda og Bakkagranda, að Nestjörn og aftur að bílastæði.

Föstudagur 13. maí kl. 6:
Nauthóll, bílum lagt á bílastæði við Nauthólsvík, gengið fyrir Fossvog yfir í Kópavog og til baka.